Starfið er bara rétt að byrja
Þorsteinn Gunnarsson, fyrrum rektor Háskólans á Akureyri, fékk í vor viðurkenningu frá Akureyrarbæ og háskólanum fyrir störf sín í þágu norðurslóða og var einnig heiðraður á ráðstefnu Arctic Circle í Október síðastliðinn. Hann er nýverið kominn á eftirlaun en hefur síðasta aldarfjórðung unnið gjöfult starf og talað fyrir mikilvægi norðurslóðastarfs og menntunar á því sviði á Íslandi.
Mótaði framtíðarstefnu Háskólans á Akureyri
Þorsteinn varð rektor Háskólans á Akureyri árið 1994. „Þá var mjög lítill áhugi fyrir norðurslóðamálum og almennt talað lítið um þau. Mér fannst vera þörf fyrir þekkingu á norðurslóðasvæðinu, það voru miklar breytingar í aðsigi sem þyrfti bæði að rannsaka og uppfræða fólk um hvað kunni að verða,“ segir Þorsteinn.
Eftir hann varð rektor stofnaði hann til samstarfs við rektora annarra háskóla í Evrópu sem voru að vinna að norðurslóðamálum. Samstarfið leiddi til þátttöku Háskólans á Akureyri í stofnun samstarfsnets háskóla á norðurslóðum, University of the Arctic. Háskólinn á Akureyri, ásamt Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, voru einu íslensku stofnaðilarnir að samtökunum, en í dag eru allir íslensku háskólarnir með aðild að samtökunum. Þorsteinn hvatti einnig Akureyrarbæ til þátttöku í norðurslóðamálum. Bærinn gerðist aðili að héraðasamtökum á norðurslóðum, Northern Forum, og hefur tekið virkan þátt í samtökunum. Úr þessum samtökum hefur meðal annars sprottið samstarf bæjarstjóra, Arctic Mayors Forum, sem Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, gegnir formennsku í.
Öflugt nám í heimskautarétti við HA
Í Háskólanum á Akureyri er boðið upp á öflugt nám í heimskautarétt og er það einsdæmi á Íslandi. Þorsteinn taldi á sínum tíma mikilvægt að það yrðu kennd norðurslóðafræði í félagsvísindadeild og lagadeild háskólans og sett yrði upp sérstök námsgrein í Polar law sem gæti náð til alþjóðlegs markaðs. „Það er ennþá verið að kenna heimskautarétt og hefur vakið sérstaka athygli erlendis á Akureyri að við séum með þessa gráðu,“ segir Þorsteinn.
Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís)
Eftir að Þorsteinn hætti sem rektor Háskólans á Akureyri árið 2009 starfaði hann hjá Rannís til ársins 2020. Rannís er tengiliður Íslands við alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndina (IASC). „IASC eru mikilvægustu samtök vísindastofnana um norðurslóðir,“ segir Þorsteinn.
Rannís skipar fulltrúa í stjórn IASC sem hefur skrifstofu á Akureyri. IASC stendur meðal annars fyrir vísindaviku einu sinni á ári sem flakkar á milli aðildarlandanna sem eru 23 talsins. Þorsteinn var formaður undirbúningsnefndar vísindavikunnar árið 2020 sem breyttist snarlega tveimur vikum áður en Covid skall á og þurfti að treysta á rafrænan viðburð sem tókst vel með hjálp Háskólans á Akureyri. Rannís leggur einnig áherslu á að tengja norðurslóðamálefni inn í alþjóðlegar rannsóknaráætlanir Evrópusambandsins og á vettvangi Norðurlandanna. Rannís gaf út skýrslu á síðasta ári, Mapping Arctic Research in Iceland í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Norðurslóðanet sem kortleggur norðurslóðastarf bæði innanlands og erlendis.
Af hverju norðurslóðamál?
„Já það eru nú ýmsar ástæður fyrir því. Þegar ég tók við Háskólanum á Akureyri var ekki til opinber stefna fyrir háskólann og ég braut dálítið heilann um það hver fókusinn ætti að vera. Eftir íhugun og umræðu fannst mér að háskólinn ætti að reyna að þjóna hinum dreifðu byggðum á Íslandi. Til þess að gera það væri mjög gagnlegt að læra af reynslu í nágrannalöndum sem byggju við svipaðar aðstæður og dreifbýli á Íslandi. Það eru þessi norðlægu svæði í Skandinavíu, Kanada og Alaska. Hafísinn, snjórinn og jöklarnir móta mikið það umhverfi sem við búum við, og þetta umhverfi er í miklum breytingum. Ég vildi að vísindin væru tæki og þekking sem fást við þessar miklu breytingar sem væru fyrirsjáanlegar,“ segir Þorsteinn.
Mikið eftir enn
Þorsteinn segist þakklátur fyrir að tækifærið til að hrinda af stað málum eins og norðurslóðaáherslunum og fá síðan að fylgjast með þeim vaxa og dafna.<br>„Til allrar hamingju var hópur af fólki sem var tilbúið að leggja í þennan leiðangur og ég held að við höfum uppskorið vel fyrir Akureyri og nágrenni í því. En starfið er bara rétt að byrja, það er mikið óunnið,“ segir Þorsteinn.
„Til allrar hamingju var hópur af fólki sem var tilbúið að leggja í þennan leiðangur og ég held að við höfum uppskorið vel fyrir Akureyri og nágrenni í því. En starfið er bara rétt að byrja, það er mikið óunnið.“