Móta framtíðaráherslur norðurslóðarannsókna
Gerlis Fugmann fluttist til Íslands fyrir tveimur árum til að starfa sem framkvæmdastjóri Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) á Akureyri. Hún kann vel við sig í íslenskri veðráttu og hefur margra ára reynslu í norðurslóðamálum, meðal annars sem framkvæmdastjóri APECS, samtaka ungra vísindamanna á norðurslóðum.
Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (IASC)
IASC er alþjóðleg nefnd sem stuðlar að rannsóknum á norðurslóðum og samstarfi milli stofnana og samtaka og eru meðlimir samtakanna 24 talsins. „Skrifstofan er í raun í bakgrunni en við sjáum um samskipti, fjármál og erum ákveðinn miðpunktur í skipulagningu og stuðningi við meðlimi og þeirra störf,“ segir Gerlis.
Aðild að nefndinni eiga alþjóðlegar vísinda- og rannsóknarstofnanir frá norðurskautsríkjunum átta ásamt stofnunum frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Portúgal, Póllandi, Suður-Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi.
Rannís hýsir skrifstofu IASC sem er í háskólabyggingunni Borgum á Akureyri en höfuðstöðvar IASC hafa verið á Íslandi síðan árið 2017. Með því að reka höfuðstöðvar IASC á Íslandi veitir það íslensku vísindasamfélagi betri aðgang að því öfluga tengslaneti sem IASC býr að og styrkir að auki norðurslóðastarfsemina á Akureyri.
Byggja á langtímaskipulagningu og markmiðasetningu
Starfsemi nefndarinnar byggir á fimm vinnuhópum sem starfa allir út frá ákveðnum þemum: Landræn kerfi (terrestrial), freðhvolf (Cryosphere), hafvísindi (Marine), mann- og félagsvísindi (Human & Social) og gufuhvolf (Atmosphere). „Starfsemin fer að mestu fram innan starfshópanna sem eru kjarni samtakanna og vinnu hvers árs. IASC eru þverfagleg samtök og eru verkefnin eftir því. Hver hópur hefur sín verkefni og veitir styrki á hverju ári til að stuðla að samstarfi milli ólíkra vísindamanna og hópa,“ segir Gerlis.
IASC heldur einnig ráðstefnu ár hvert sem kallast Vísindavika Norðurslóða (Arctic Science Summit Week). Ráðstefnan var seinast haldin í gamla heimabæ Gerlis, Tromsö í Noregi á þessu ári og mun sú næsta vera í Vínarborg í Austurríki í febrúar árið 2023.
Frá árinu 1995 hefur IASC stuðlað að því að samtök og samfélag norðurslóðavísinda komi saman á alþjóðlegri ráðstefnu um heimskautarannsóknir sem kallast ICARP (International Conference on Arctic Research Planning), sjá hér: https://icarp.iasc.info/.
„Þetta kallast ráðstefna en er það í raun ekki. Þetta er ferli þar sem vísindasamfélag norðurslóða kemur saman til að ræða málefni norðurslóða með það að markmiði að rannsóknasamfélagið snerti á þessum vanda á næsta áratug.“
Ráðstefnan er haldin á tíu ára fresti. Sú fyrsta var árið 1995 og síðast var hún haldin árið 2015. „Við byggjum starfsemi IASC á þeim niðurstöðum sem koma frá ráðstefnunni. Við erum byrjuð að undirbúa fjórðu ICARP ráðstefnuna fyrir árið 2025 sem mun verða í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum. Þetta krefst langtíma skipulagningar sem tekur nokkur ár vegna þess að við vinnum með mismunandi skoðanir og vitneskju, þar á meðal vitneskju frumbyggja sem er augljóslega mikilvægur þáttur. Þetta er ótrúlega spennandi ferli því spurningarnar sem vakna út frá þessu móta viðfangsefni norðurslóðarannsókna í framtíðinni,“ segir Gerlis.
Áhugi fyrir norðurslóðum kviknaði í Kanada
Gerlis er fædd og uppalin í Þýskalandi og kláraði þar öll stig háskólanáms í landafræði. Þegar hún tók skiptinám í Kanada fæddist áhugi hennar á norðurslóðamálum. „Þegar ég var í námi í Þýskalandi tók ég tveggja ára skiptinám við Northern British Columbia háskólann í Kanada. Þar kynntist ég hinu kanadíska norðri sem varð til þess að ég valdi að rannsaka efnahagslega þróun í Nunavut í Norður-Kanada í mastersrannsókninni minni“.
Nunavut er eitt af strjálbýlustu landsvæðum heims og er meirihluti íbúa svæðisins Inúítar. Í framhaldi af mastersrannsókninni byggði Gerlis einnig doktorsrannsókn sína á sambærilegum rannsóknum á Nunavik og Nunatsiavut. Á meðan Gerlis vann að doktorsgráðu sinni starfaði hún einnig sem sjálfboðaliði hjá APECS (Association of the early polar career scientists) í Noregi, en það eru samtök sem styðja við unga vísindamenn í rannsóknum á norðurslóðum. Gerlis sat í framkvæmdanefnd samtakanna, var forseti í eitt ár og jók það enn frekar áhuga hennar á heimskautinu. Síðan gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra APECS á árunum 2013-2020.
Þegar kominn var tími á að hætta hjá APECS sótti Gerlis um framkvæmdastjórastöðu hjá IASC. „Ég ákvað að það væri tími kominn til að leita á önnur mið. IASC eru samstarfssamtök APECS þannig ég hafði unnið með þeim í fjölbreyttum verkefnum. Þegar staðan var auglýst, sótti ég um og mér til mikillar ánægju fékk hana,“ segir Gerlis.
„Heppin að vera hérna“
Aðspurð hvernig henni finnist að búa á Íslandi segist hún elska það. „Ég bjó í norðri áður, í Tromsö og hef saknað þess. Þegar ég sneri aftur til Þýskalands þurfti ég að aðlagast borgarlífi og snjóleysi,“ segir hún og hlær. Gerlis ólst upp í litlum bæ í Þýskalandi og því hentar henni að vel að búa á Akureyri. „Hlutirnir eru ekki eins erilsamir og í stórborgum. Akureyri er líka fallegur bær og mér finnst ég heppin að vera hérna.“
„Starfsemin fer að mestu fram innan starfshópanna sem eru kjarni samtakanna og vinnu hvers árs. IASC eru þverfagleg samtök og eru verkefnin eftir því. Hver hópur hefur sín verkefni og veitir styrki á hverju ári til að stuðla að samstarfi milli ólíkra vísindamanna og hópa.“