Írskur landfræðingur starfar í norðurslóðamálum á Akureyri
Tom Barry flutti til Íslands fyrir tuttugu árum frá Írlandi. Síðastliðin fjórtán ár hefur hann verið framkvæmdastjóri CAFF skrifstofunnar á Íslandi, sem er vinnuhópur Norðurskautsráðsins um verndun lífríkisins á norðurslóðum.
Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Aðildarríki ráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð.
Áhersla á lífríki norðurslóða
CAFF er annar tveggja vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem staðsettur er á Íslandi. Akureyri er, fyrir utan Noreg, stærsta miðstöð stefnumótunar og vísinda varðandi málefni norðurslóða. Hlutverk CAFF er að vinna að verndun lífríkis á norðurslóðum og miðla niðurstöðum starfs síns til ríkisstjórna og íbúa svæðisins og stuðla þannig að sjálfbærni. CAFF gerir úttektir á þeim breytingum sem sjást og útbýr síðan ráð og tilmæli um stjórnun og stefnu fyrir norðurheimskautsríkin og frumbyggjasamtök. „Með því neti vísindamanna og stefnumótenda sem CAFF samanstendur af útbúum við upplýsingar og tilmæli sem gagnast við ákvarðanatöku er varðar þær breytingar sem eru að eiga sér stað í lífríki norðurslóða,“ segir Tom.
CAFF er ásamt öðrum norðurslóðastofnunum í rannsóknahúsinu Borgum á svæði Háskólans á Akureyri. Norðurskautsráðið er dreifð starfsemi og hefur skrifstofur í Noregi, Kanada og á Íslandi. Hjá vinnuhópnum CAFF starfa 11 manns á víð og dreif um heiminn, meðal annars í Suður-Ameríku, Kanada og Bandaríkjunum. Einnig vinna fjölmargir vísindamenn um allan heim með CAFF.
Hlutverk Íslands
Ísland á fast sæti í stjórn CAFF og hefur sérstaklega tekið þátt í vöktun líffræðilegs fjölbreytileika. Vöktunaráætluninni er skipt í fjóra þætti: sjávar-, ferskvatns-, strand- og landsvæði. Náttúrufræðistofnun leiðir aðkomu Íslands að þessari áætlun, en aðrar stofnanir, svo sem Haf- og ferskvatnsrannsóknastofnun, taka einnig þátt. Ísland, ásamt Svíþjóð, leiðir einnig verkefni um endurheimt búsvæða sem er talið vera forgangsverkefni á Íslandi.
Ísland minnir á Írland
Bakgrunnur Toms er upphaflega í fornleifafræði og landafræði og nýlega útskrifaðist hann með doktorsgráðu í umhverfis- og auðlindastjórnun frá Háskóla Íslands. Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa góða hæfni í mannlegum samskiptum og hæfni til að vinna með fólki af ólíkum bakgrunni og ólíkum sjónarhornum á þessu sviði. Tom bendir á að Ísland og Írland eigi margt líkt og hann nýtur þess að búa á Íslandi með íslenskri konu sinni og tveimur börnum. Hundurinn hans, Tinna, er oft með honum í vinnuna.

„Með því neti vísindamanna og stefnumótenda sem CAFF samanstendur af útbúum við upplýsingar og tilmæli sem gagnast við ákvarðanatöku er varðar þær breytingar sem eru að eiga sér stað í lífríki norðurslóða.“