Fólk í norðurslóðarmálum

Vitað um 800 tegundir af fléttum á Íslandi

Starri Heiðmarsson - Náttúrufræðistofnun Íslands

Starri Heiðmarsson, doktor í fléttufræði, starfar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Borgum á Akureyri. Hann hefur unnið hjá stofnuninni síðan um aldamótin við gróðurrannsóknir og hin ýmsu verkefni, meðal annars fyrir norðurslóðastofnanirnar á Akureyri. En hvernig tengist fléttufræði norðurslóðamálum?

Hvað eru fléttur?

Starri segir fléttufræði vera undirgrein grasafræði eða öllu heldur sveppafræði: „Fléttur eru að stórum hluta asksveppir með grænþörung í sambýli eða blábakteríur. Sveppir, sem ófrumbjarga lífverur, þurfa að lifa á einhverju og asksveppir lifa á því að láta einhvern, þ.e. grænþörung eða blábakteríu, framleiða fyrir sig með ljóstillífun. Við gætum jafnvel haldið því fram barrtré séu fléttur, þau eru að ljóstillífa fyrir furusveppina og lerkisveppina sem eru svepprótarsveppirnir sem sjá um að útvega vatn og steinefni fyrir trén og lifa svo á trjánum. Ef þú ferð að flækja þig í þessum málum, þ.e. tengslum sveppa og plantna, þá eru til sníkjuplöntur sem eru hættar að ljóstillífa sjálfar, þær nýta sér svepprótarsveppi sem tengja þær við hýsilinn. Svo sveppurinn er orðinn milliliður í að halda einhverju glæpon uppi,“ segir Starri og hlær.

Starri lærði líffræði í Háskóla Íslands og sérhæfði sig í fléttufræði við háskólann í Uppsala í Svíþjóð. Hann rannsakaði ákveðna ættkvísl af fléttum í doktorsverkefninu sínu. Sú ættkvísl af fléttum heita Korpur á íslensku og finnast víðs vegar um heiminn bæði á norðurslóðum og einnig í hitabeltinu. Starri segir að áhugi hans á grasafræði hafi kviknað þegar hann fékk sumarstarf hjá Herði Kristinssyni grasafræðingi á Akureyri en Starri tók við af honum hjá Náttúrufræðistofnun. „Í framhaldi af því þá lá áhugasvið mitt í þróunarsögu og að afhjúpa hvernig tegundir og ættir eru skyldar innbyrðis og vita hvað hefur gerst í gegnum tíðina. Flokkunarfræði vakti áhuga minn og þá var bara spurning hvaða hóp maður myndi velja. Að mörgu leyti fannst mér fléttur áhugaverðar og það vantaði fléttufræðing til að taka við af Herði.“

800 tegundir af fléttum til á Íslandi og sífellt að bætast við

Náttúrufræðistofnun ber að fylgjast með hvaða tegundir eru til í lífríki landsins. Í húsnæði stofnunarinnar á Akureyri er fléttusafn með yfir 20.000 eintökum, þar sem reynt er að hafa fulltrúa fyrir sem flestar tegundir. „Við erum með 800 tegundir af fléttum á Íslandi sem er tvisvar sinnum meira en æðplöntur. Fáir hafa stundað rannsóknir á þeim og um leið og við förum að leita og safna fléttum þá finnum við nánast alltaf einhverjar nýjar tegundir sem hafa ekki fundist hérna áður,“ segir Starri.

Á Íslandi hefur tvisvar verið haldið mót fyrir fléttufræðinga á Norðurlöndunum. Árið 1997 voru tuttugu manns með aðsetur á Eiðum og keyrðu víða um Austurland og söfnuðu fléttum, þá fundust um 50 nýjar tegundir. Árið 2009 var mótið á Snæfellsnesi og þá segir Starri að hafi fundist svipur fjöldi af nýjum tegundum.

Fulltrúi Íslands í þurrlendishóp CBMP

Starri segir tengsl hans við norðurslóðamál snúast um rannsóknir í sambandi við viðbrögð gróðurs og sérstaklega fléttna við loftslagsbreytingum en einnig samstarfi hans við starfshóp Norðurskautsráðsins, CAFF. Starri deilir formennsku í þurrlendishópi CBMP (Circumpolar biodiversity monitoring program) sem er eitt af aðalverkefnum CAFF. Verkefninu er skipt í fjóra hluta: þurrlendis-, sjávar-, fjöru- og ferskvatnshóp. Hlutverk þessara CBMP hópa hefur verið að samræma rannsóknir og vinnu milli þeirra óháð staðsetningu. Tilgangur verkefnisins er að byggja upp vöktunaráætlun sem er samræmd á milli allra landanna til að rannsakendur geti nýtt sér gögn annarra og gert samanburð. „Ef við ætlum að fylgjast með lífríkinu og líffræðilegri fjölbreytni þá eru engin landamæri sem virka og dugar ekki að vinna hvert í sínu landi. Við þurfum að horfa á þetta heildrænt og hvaða breytingar eru að verða á Norðurslóðum,“ segir Starri.

Áhrif loftslagsbreytinga á fjallstoppa og fléttur

Ásamt samstarfi við CAFF og önnur nefndarstörf tekur Starri einnig þátt í verkefnum sem koma að vöktun landsvæða vegna gróðurhúsaáhrifa. Eitt alþjóðlegu verkefnanna heitir Gloria (Global Observation Research Initiative in Alpine Environments). Gloria snýst um að fylgjast með breytingum á fjallstoppum vegna hlýnunar. Samkvæmt Starra henta fjallstoppar til vöktunar vegna þess að þeir eru næmir fyrir breytingum og sýna fljótt breytingar. Síðustu ár hefur stofnunin fylgst með reitum í Öxnadal en Starri hefur ásamt svissnesku teymi farið til rannsóknarstöðvarinnar Zackenberg á norðaustur Grænlandi þar sem er annað GLORIA svæði sambærilegt við Öxnadalinn.

Starri hefur einnig með höndum verkefni sem kollegi hans Eyþór Einarsson hóf árið 1965. Það snýst um vöktun jökulskerja í Breiðamerkurjökli, en þessi sker hafa stækkað mikið vegna þess að jökullinn er að þynnast. „Það er svo margt sem við erum að rannsaka í byggð, allt undir mannlegum áhrifum. Við erum með skepnuhald og beit og erfitt er að ráða fram úr hvort að breytingar séu vegna hlýnunar, beitar eða annarra breytinga á landnotkun. En í jökulskerjunum er ekkert mannlegt nema mengun eða loftslagsbreytingar, ekkert annað en náttúruleg rjúpnabeit,“ segir Starri.

Starri Heiðmarsson

„Við erum með 800 tegundir af fléttum á Íslandi sem er tvisvar sinnum meira en æðplöntur. Fáir hafa stundað rannsóknir á þeim og um leið og við förum að leita og safna fléttum þá finnum við nánast alltaf einhverjar nýjar tegundir sem hafa ekki fundist hérna áður.“