Fólk í norðurslóðarmálum

Virðingarverð og unaðsleg heimskautalönd

Níels Einarsson - Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar hóf göngu sína á Akureyri árið 1998 og var Níels Einarsson, mannfræðingur, ráðinn forstöðumaður hennar. Þeirri stöðu hefur hann gegnt síðan. Starfsemi stofnunarinnar einkennist af þátttöku í stórum alþjóðlegum og þverfaglegum rannsóknarverkefnum sem fjármögnuð eru af erlendum vísindasjóðum. Þar er sjónum beint að samfélögum og umhverfi norðurslóða og hinni mannlegu vídd sjálfbærrar þróunar í norðri.

Sjómennskan varð innblástur að rannsóknum

Níels er fæddur og uppalinn Austfirðingur, frá Norðfirði. Hann er úr sjómannsfjölskyldu og varði mörgum sumrum með föður sínum á sjó. „Ég lærði eitt og annað um lífsbaráttuna og glímuna við náttúruöflin,“ segir Níels. „Þessi reynsla er eitt af því sem ég er þakklátur fyrir. Sérstaklega þegar maður situr á stól á skrifstofunni, horfir út um gluggann, er ekki kalt, ekkert sérstaklega þreyttur og í öruggu umhverfi.“

Eftir menntaskóla fór Níels í nám í mannfræði í Háskóla Íslands og síðar í framhaldsnám í Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Hann lauk þar doktorsgráðu í mannfræði sem hann vann að hluta við háskólann í Oxford í Englandi. Ritgerðin fjallaði um deilur um sjávarspendýraveiðar á norðurslóðum með mannfræðilegri greiningu á hugmyndafræði umhverfisverndarsinna og þeirra sem stunda veiðarnar. „Þetta tengist norðurslóðum á þann hátt að á þessu svæði eru hefðbundnir hópar og samfélög sem byggja sitt á sjávarnýtingu og dýraveiðum. Það er mikið atriði og lífspursmál að þessi samfélög haldi í réttinn til að nýta náttúruauðlindir í samræmi við eigin skilgreiningar á hvað sé rétt, meðal annars vegna þess að það er svo lítið annað að byggja á,“ segir Níels.

Stofnunin er byggð á mannfræði

Stofnunin er nefnd eftir Vestur-Íslendingnum Vilhjálmi Stefánssyni sem var menntaður mannfræðingur frá Harvard. Níels segir að skilningur hans sem mannfræðings hafi verið töluvert ólíkur annarra heimskautakönnuða. Vilhjálmur dvaldi samanlagt í um 11 ár meðal Inúíta á heimskautasvæðinu. Hann lagði mikið upp úr að norðurslóðir gætu verið vinalegar til búsetu en einnig að sú sýn byggi á árþúsunda reynsluþekkingu innfæddra á náttúrunni og aðlögun að umhverfinu. „Stofnuninni fylgir kjörorðum Vilhjálms varðandi heimskautslöndin unaðslegu með þann skilning að þessi samfélög séu virðingarverð, merkileg og þau séu verðugt rannsóknarefni,“ segir Níels.

Hlotið fjölda erlendra styrkja

Stofnunin hefur frá upphafi átt í virku samstarfi við erlenda aðila í rannsóknum á norðurslóðum. Til þess að treysta á stofnunina, sem býr við litlar og lækkandi fjárveitingar frá hinu opinbera hafa starfsmenn hennar náð frábærum árangri við að sækja fjármagn úr erlendum samkeppnissjóðum, á síðustu 10 árum um 600 m.kr. Slíkir styrkir í harðri alþjóðlegri samkeppni eru í raun besti mælikvarðinn á gæði starfseminnar. Níels segir þau vera að vinna að stórum verkefnum sem hafa verið styrkt af Norræna rannsóknarráðinu og H2020 vísindaáætlun Evrópusambandsins, meðal annars JUSTNORTH verkefnið sem fjallar um sjálfbæra efnahagsþróun og réttlætismál á norðurslóðum. Einnig hafa starfsmenn stofnunarinnar verið leiðandi í öðru H2020 verkefni sem nefnist NUNATARYUK sem fjallar um þau miklu viðfangsefni sem tengjast loftslagsvánni varðandi bráðnun sífrera á norðurslóðum, áhrif á samfélög og mögulega aðlögun.

Nýtur þess enn að veiða

Níels kann vel við sig á Akureyri: „Ég er náttúrulega kominn af sjómönnum þannig að ég nýti mér Eyjafjörðinn mikið. Ég á seglskútu sem að ég sigli, bæði til þess að aka seglum og til þess að veiða. Ég held að það sé allt of lítið um að fólk nýti sér fjörðinn til þess hreinlega að sækja sér bara mat í frystinn,“ segir Níels.

Níels Einarsson

„Stofnuninni fylgir kjörorðum Vilhjálms varðandi heimskautslöndin unaðslegu með þann skilning að þessi samfélög séu virðingarverð, merkileg og þau séu verðugt rannsóknarefni.“