Fólk í norðurslóðarmálum

Sérfræðingar í óbyggðum

Arnar Friðriksson - Norlandair

Flugfélagið Norlandair á Akureyri sinnir flugi til Grænlands og nokkurra minni þéttbýliskjarna á Íslandi. Norlandair er dýrmæt samgönguþjónusta fyrir norðurslóðir að því leyti að fyrirtækið sérhæfir sig í ferðum til einangraðra staða og er á þann hátt lífæð í samgöngum minni byggða og mikilvæg þjónusta fyrir rannsóknir á norðurslóðum.

Grænlandsflug

Norlandair flýgur til Grænlands allt árið um kring. Fyrirtækið flýgur að mestu til Norðaustur-Grænlands og hefur fjölmörg lendingarsvæði í þeim landshluta. Aðstæður geta þó breyst á milli lendinga vegna veðurfars og þurfa flugmennirnir að vera viðbúnir því. Arnar Friðriksson, sölu- og markaðsstjóri Norlandair segir starfsmenn félagsins þekkja byggð svæði minna og vera einskonar „sérfræðinga í óbyggðum.“

Viðskiptavinir fyrirtækisins er í raun þröngur hópur, segir Arnar. Einstaklingarnir sem fljúga með Norlandair til Grænlands eru vísindamenn í rannsóknarferðum til Austur-Grænlands auk starfsmenn fyrirtækja í leit að auðæfum í jörðu. Einnig sinna þeir flugi fyrir danskar herstöðvar á Austur Grænlandi. Flugfélagið aðstoðar vísindamenn í rannsóknaferðum þeirra með því að koma fyrir mælitækjum og myndavélum á flugvélarnar. „Stundum vitum við ekki alveg hvað vísindamennirnir eru að gera en ef þú spyrð þá útskýra þeir alveg í þaula,“ segir Arnar og hlær. Sem dæmi nefnir Arnar þýskan vísindamann sem flýgur árlega til Grænlands til að telja læmingja. „Hann er svo áhugasamur, sem er alveg frábært.“

Innanlandsflug

Starfsemi Norlandair byggist að mestu á Grænlandsfluginu en innanlandsflugið er um það bil 30% af starfsemi flugfélagsins. Innanlands flýgur Norlandair frá Akureyri til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar. Flogið er fimm sinnum í viku allt árið um kring til Vopnafjarðar og Þórshafnar og þrisvar í viku til Grímseyjar á veturna og tvisvar á sumrin. Þegar meira hefur verið af ferðamönnum er flogið oftar til Grímseyjar, en Arnar segir að Grímsey hafi gífurlegt aðdráttarafl vegna nálægðar við heimskautsbauginn og lundann. Fyrirtækið rekur einnig eina vél í Reykjavík sem flýgur til Bíldudals sex daga vikunnar og tvo daga vikunnar á Gjögur í Árneshreppi. Báðar byggðirnar eru hluti af verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir. Flugin vestur hafa verið vel nýtt af íbúum Bíldudals og í farmflutning, segir Arnar.

Akureyri höfuðstöðvar Norlandair

Norlandair var stofnað 1. júní 2008 á Akureyri en saga félagsins er eldri þótt Norlandair sé aðeins 13 ára gamalt. Sögu þess má rekja til Norðurflugs sem stofnað var árið 1959 og varð síðar Flugfélag Norðurlands. Árið 1975 hóf flugfélagið leiguflug á Grænlandi sem byggir grunninn að þeirri starfsemi sem Norlandair er í dag.

Þegar Flugfélag Ísland seldi Twin Otter vélarnar sem staðsettar voru á Akureyri fóru nokkrir starfsmenn þaðan ásamt Friðriki Adólfssyni, tóku við rekstri vélanna og stofnuðu Norlandair. Markmiðið með stofnun Norlandair var að halda áfram hinum víðtæka flugrekstri sem hefur verið Akureyri í áratugi.

„Við hjá Norlandair byggjum því á langri sögu og reynslu, ekki síst í Grænlandsfluginu. Reynslan hefur sýnt að staðsetning okkar á Akureyri er mjög góð gagnvart flugþjónustu við Grænland.“, segir Arnar.

Arnar Friðriksson

„Við hjá Norlandair byggjum því á langri sögu og reynslu, ekki síst í Grænlandsfluginu. Reynslan hefur sýnt að staðsetning okkar á Akureyri er mjög góð gagnvart flugþjónustu við Grænland.“