Fólk í norðurslóðarmálum

Eini staðurinn í heiminum þar sem hægt er að keyra á bíl til heimskautasvæðisins

Pedro Rodrigues - Rannsóknastöðin Rif

Vorið 2021 var nýr forstöðumaður, Pedro Rodrigues, ráðinn til starfa á Rannsóknarstöð Rif á Raufarhöfn. Pedro sem er frá Portúgal er menntaður sjávarlíffræðingur og með doktorspróf í erfðarannsóknum og þróun fugla. Hann fluttist til Íslands fyrir þremur árum og dreymir nú um að kaupa sér hús á Raufarhöfn.

Með bakgrunn í líffræði og fuglafræði

Pedro er uppalinn á Asoreyjum. Hann er með doktorsgráðu í phylogeography en sú fræðigrein rannsakar mun lífvera út frá erfðum, landafræði og tíma.

Eftir námið fluttist hann til Chile ásamt eiginkonu sinni þar sem hann rannsakaði fugla og smitsjúkdóma í fuglum. Þau fluttust til Íslands fyrir þremur árum og starfar eiginkona Pedros hjá Náttúrustofu Suðvesturlands í Sandgerði. Þegar staða forstöðumanns hjá Rif var auglýst í apríl hvatti hún Pedro til að sækja um starfið, þrátt fyrir að það myndi skapa verulega vegalengd á milli þeirra.

Rannsóknastöðin Rif

Rannsóknastöðin Rif var formlega stofnuð árið 2014 sem hluti af þróunarverkefni Byggðastofnunar. Rif er hluti af alþjóðlegu samstarfsneti sem kallast INTERACT en í því eru rannsóknarstöðvar um allan heim sem vinna að málefnum norðurslóða, allt frá dýralífi til félagsmála. Áhersla Rifs er á vöktun gróðurs og dýralífs á Raufarhöfn og Melrakkasléttu. "Dagleg störf mín í rannsóknarstöðinni felast í því að hafa umsjón með starfsemi sem tengist málefnum norðurslóða. Ég vinn mikið með fugla en rannsaka einnig plöntur og aðrar dýrategundir sem finnast á svæðinu," segir Pedro.

Aðstoðar nemendur við rannsóknir

Af og til koma bæði nemendur og vísindamenn í rannsóknarferðir til Rif á Raufarhöfn. Oft er verið að skoða fjölbreytt lífríki norðurslóða, til dæmis heimskautarefinn, mökunartíma fugla og frjókorn. Pedro segir Raufarhöfn vera eitt besta heimskautasvæðið til rannsókna á lífríki norðurslóða. Eitt af aðal verkefnum Pedro er að fá fleiri erlenda vísindamenn til að koma hingað og eiga möguleika á samstarfi. „Ef þú vilt sjá lífríki norðurslóða hvort sem það eru plöntur eða fuglar þá er þetta staðurinn til þess, af því það er svo auðvelt að komast hingað.“

„Vegna þess að rannsóknastöðin er svolítið eins og óskrifað blað get ég ráðið að einhverju leyti hvað ég vill einblína á í sambandi við heimskautasvæðið og loftslagsáhrif. Náttúruvernd hefur alltaf verið mér hugleikin en það er fyrst núna í þessu starfi sem mér finnst ég hafa tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Melrakkaslétta og Raufarhöfn eru með bestu svæðum í heiminum til að rannsaka náttúru heimskautasvæða vegna þess að stór hluti svæðisins er ekki í byggð lengur og því hægt að fylgjast breytingum meðal annars loftslagsáhrifum. Einnig eru engir aðrir staðir á jörðinni þar sem hægt er að keyra á bíl til heimskautasvæðis. Til að finna svipaða staði í Síberíu, Alaska eða í norður Noregi þyrfti að fljúga en á Íslandi getur fólk keyrt!“ segir Pedro.

Framtíðin

Þegar Pedro sótti um starfið gerði hann áætlun til næstu fimm ára fyrir starfsemi stöðvarinnar. Hann segist gjarnan vilja gera meira úr rannsóknarstöðinni fyrir samfélagið á Raufarhöfn og nágrenni „Eitt af því sem ég vill gera er að gefa íbúum Raufarhafnar pláss í starfsemi stöðvarinnar, sem gæti verið að taka þátt einn dag eða helgi á ári. Ég tel það mikilvægt fyrir fólkið hérna að því finnist Rif vera partur af þeirra samfélagi og að það sé ekki bara fyrir mig heldur alla.“

Pedro langar einnig til að kaupa hús á Raufarhöfn og verða hluti af samfélaginu. „Þegar ég kom hingað í vor fékk ég strax á tilfinninguna að ég væri kominn heim.“

Pedro Rodrigues

„Ef þú vilt sjá lífríki norðurslóða hvort sem það eru plöntur eða fuglar þá er þetta staðurinn til þess, af því það er svo auðvelt að komast hingað.“