Málþing 14. mars 2014

isl-a-nordurslodum-site

Viðskiptatækifæri og áskoranir
í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, leit og björgun og olíuleit

Dagskrá PDF

Upptökur frá málþinginu

Loftslagbreytingar og bráðnun íss á norðurslóðasvæðinu hafa á undaförnum árum vakið athygli heimsbyggðarinnar í auknum mæli. Möguleikar er varða betra aðgengi á svæðinu vekja upp vangaveltur varðandi þau viðskiptatækifæri sem þeirri þróun fylgja. Umræða um aukna starfsemi á svæðinu helst þó í hendur við umræðu um áhrif slíkrar starfsemi á náttúru og samfélög sem á svæðinu eru. Náttúra svæðisins er viðkvæm og að hana ber að umgangast með ýtrustu gætni. Viðskiptaleg, samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið eru því óumdeilanlega fléttuð saman.

Almennt er viðurkennt að lykilatriði í nýtingu svæðisins sé alþjóðleg samvinna. Hið sama á við um Ísland. Ein af aðalforsendum þess að Íslendingar geti nýtt sér tækifærin en jafnframt beitt sér fyrir ábyrgri nýtingu er að það eigi sér stað samstarf og uppbyggilegar samræður á milli þeirra margvíslegu hagsmunaaðila sem þessi málefni varða. Þannig er hægt að stuðla að því að fjölbreytt sjónarmið fái notið sín og tækifæri nýtt með skynsamlegum hætti.

Í október 2013 – á Arctic Circle ráðstefnunni – skipulögðu Norðurslóðanet Íslands, Norðurslóða-viðskiptaráðið, Samvinnunefnd um málefni norðurslóða og Arctic Services sameiginlega málstofu um samvinnu á milli klasa fyrirtækja og klasa fræðimanna. Um það bil 30 manns mættu á fund sem litið var á sem fyrsta skref í því að efla samskipti á milli fyrirtækja og fræðimanna sem áhuga hafa á þróun þeirri sem nú á sér stað á norðurslóðum, tækifærum og áskorunum.

Markmið

Markmið málþingsins nú er að draga fram hnitmiðaða umfjöllun og áþreifanlegar upplýsingar um viðskiptatækifæri og áskoranir tiltekinna atvinnugreina og dýpka þannig á umræðunni um stöðu Íslands á norðurslóðum til skemmri og lengri tíma. Fjórir fundir verða haldnir yfir daginn um fjórar atvinnugreinar – ferðaþjónustu, sjávarútveg, leit og björgun og olíuleit – þar sem fulltrúar fyrirtækja og fræðimenn í viðkomandi greinum miðla reynslu sinni og velta upp hugmyndum um snertifleti til samstarfs í samhengi við norðurslóðir, með góðri aðstoð pallborðsþátttakenda.

 

logos-site

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal