Samningar

arctic law of the sea svalbard Málefni norðurslóða hafa að undanförnu hlotið aukið vægi í utanríkisstefnu Íslands. Til að mynda var í Reykjavík gengið frá tímamótasamningi í desember 2010 hinna átta aðildarríkja Norðurskautsráðsins um leit og björgun á norðurslóðum (SAR-samningi) sem hefur gríðarmikið vægi fyrir Íslendinga. Með samningnum er brugðist við aukinni fyrirsjáanlegri umferð á sjó og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu af slysum sem þar af leiðir og kveðið á um aukið samstarf ríkjanna við leitar- og björgunaraðgerðir.

Samningurinn er jafnframt mikilvægt fordæmi og vísir að frekari samningsgerð og nánu samstarfi ríkjanna átta í hinum ýmsu málefnum norðurslóða á vettvangi Norðurskautsráðsins en þetta er fyrsti samningur sem gerður er í Norðurskautsráðinu sem er lagalega bindandi.

Ýmsir fleiri samningar eru í gildi er varða norðurslóðir auk samstarfsvettvanga og gefur hér að líta yfirlit yfir þá helstu. Allar upplýsingar koma frá utanríkisráðuneytinu.

 


Hafréttarmál


Heildarstefna Íslands í málefnum hafsins.

Lögbundnir samningar sem Ísland hefur skrifað undir:

Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna (pdf) - Law of the Sea: Fyrsti og eini heildstæði alþjóðasamningurinn á sviði hafréttar. Með honum voru ýmist staðfestar gildandi venjureglur eða settar nýjar reglur um öll not hafsins. Hann hefur m.a. að geyma ákvæði um landhelgi, efnahagslögsögu, landgrunn, úthafið, alþjóðlega hafsbotnssvæðið, réttindi strandríkja og annarra ríkja til fiskveiða, annarrar auðlindanýtingar, siglinga og flugs, verndun gegn mengun hafsins og lausn deilumála. Ísland varð árið 1985 fyrsta vestræna ríkið til þess að fullgilda samninginn. Alls hafa 164 lönd skrifað undir samninginn en athygli vekur að Bandaríkin eru ekki eitt þeirra.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu Þjóðanna er starfræktur á Íslandi.

Úthafsveiðisamningurinn: Kveður á um framkvæmd og útfærslu ákvæða Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um fiskistofna sem finnast bæði innan efnahagslögsögu strandríkja og á úthafinu. Samningurinn styrkir verulega ramma um samstarf strandríkja og úthafsveiðiríkja á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana.

Samningar Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO): Alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um djúpsjávarveiðar og verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins: Reglunum er ætlað að auðvelda ríkjum og svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum að skilgreina og auðkenna viðkvæm vistkerfi, meta hugsanleg skaðleg áhrif fiskveiða á þau og grípa til viðeigandi aðgerða. Ísland hefur tekið virkan þátt í framkvæmd þeirra, m.a. á vettvangi svæðastofnananna NEAFC og NAFO.

Alþjóðasamningur um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum: Fyrsti alþjóðasamninginn sem gerður er gagngert til að berjast gegn ólöglegum fiskveiðum. Samningurinn skuldbindur aðildarríki hans til að loka höfnum sínum fyrir skipum sem gerst hafa uppvís að ólöglegum fiskveiðum og synja þeim um löndun, umskipun og hvers konar þjónustu.

Landgrunnur Íslands: Ísland skilaði í apríl 2009 greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna. Landgrunninn má sjá á myndinni hér til hliðar. Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu Þjóðanna eiga strandríki sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum sem eru jafnframt ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, eiga hins vegar sökum náttúrulegra aðstæðna víðáttumeiri hafsbotnsréttindi samkvæmt ákvæðum samningsins. Til dæmis gerir Rússland tilkall til eignar sjálfs Norðurpólsins og ítrekaði þá kröfu sína á táknrænan hátt eins og frægt var með því að koma rússneska fánanum fyrir á botni hafsins undir norðurpólnum árið 2007.

Viðkomandi ríki, og eru ríkin átta á norðurslóðum öll búin að senda inn eða vinna hörðum höndum við undirbúning þess, þurfa að senda landgrunnsnefndinni ítarlega greinargerð um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna. Nefndin yfirfer greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um landgrunnsmörkin.

Gert er ráð fyrir að ytri mörk landgrunns verði til lykta leidd í eitt skipti fyrir öll á næstu árum á grundvelli ákvæða hafréttarsamningsins. Mikilvægt er að Íslendingar öðlist yfirráð yfir sem víðáttumestum landgrunnssvæðum enda má gera ráð fyrir að réttindi yfir landgrunninu muni fá aukna þýðingu í framtíðinni. Þau þrjú landgrunnssvæði, sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna, þ.e. Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton Rockall-svæðið, eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands.

Þær náttúruauðlindir sem tilheyra landgrunninu eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma, aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna, t.d. jarðhiti, og lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar hafa ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan sem telst úthaf og ná ekki til fiskistofna né annarra auðlinda þess.

Samantekt greinargerðar Íslands (pdf)

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins (30. apríl 2009)

Drekasvæðið: Ísland og Noregur hafa gert með sér samninga er varðar Drekasvæðið og olíuleit þar. Meðal annars hefur sameiginlegt nýtingarsvæði verið afmarkað eins konar og á Ísland rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á norska hluta svæðisins og Noregur rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á íslenska hluta svæðisins.

Skýrsla á vef Atvinnuvegaráðuneytisins - Olíumöguleikar á Drekasvæði.

Svalbarðssamningurinn: Með samningnum um Svalbarða árið 1920 voru Noregi falin fullveldisréttindi yfir Svalbarða. Aðildarríki samningsins eru 40 talsins og er Ísland þar á meðal. Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum árið 1994 og hefur jafnan rétt á við önnur aðildarríki samningsins til fiskveiða í lögsögu Svalbarða og nýtingar hugsanlegra auðlinda á landgrunni hans.

Ágreiningur hefur ríkt milli Noregs annars vegar og Íslands og fjölda annarra aðildarríkja samningsins hins vegar um gildissvið Svalbarðasamningsins. Sem lesa nánar um það mál hér.

Samstarfsvettvangar: Svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir gegna lykilhlutverki við að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskistofna. Í þessu tilliti hefur Ísland virkt samstarf við nágrannalöndin til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda nærliggjandi hafsvæða. Þetta samstarf fer fram í svæðisbundnum stofnunum.

 • Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunin (NAFO): The Northwest Atlantic Fisheries Organization (NAFO), eru alþjóðleg samstarfssamtök sem vinnur að vísindastarfi fiskveiða og stýringu þerra á Norðvestursvæði Atlantshafsins.
 • Norðuratlantshafssjávarspendýraráðið (NAMMCO): North Atlantic Marine Mammal Commission (NAMMCO), eru alþjóðleg samstarfssamtök sem vinna að verndun, stjórnun og rannsóknum á sjávarpsendýrum í Norður-Atlantshafi.
 • Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES): The International Council for the Exploration of the Sea (ICES) eru alþjóðleg samstarfssamtök sem voru stofnuð árið 1902. Þau vinna að vísindastarfi og skiptast á hugmyndum um Norður-Atlantshafi.

 


Loftslagsbreytingar

Ísland hefur skrifað undir tvo stóra samninga og skuldbindingar er varða loftslagsmál sem nánast öll aðildarríki Sameinuðu Þjóðanna styðja. Það eru Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna (pdf) (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC) var samþykktur árið 1992 og Kyoto-bókunin (pdf).

Loftslagssamningurinn er rammasamningur um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Hann er stefnumarkandi en hefur ekki að geyma lagalega bindandi skuldbindingar um markmið eða einstakar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Því var Kýótó bókunin gerð, til að setja lagalegar skuldbindingar um mörk fyrir útstreymi gróðurhúsalofttegunda á ríki.

Enn er beðið eftir alþjóðlegs samkomulags um loftlagsmál en ríkisstjórn Íslands setti sér árið 2007 það markmið að draga úr losun um 50-75% fram til ársins 2050 miðað við árið 1990. Núgildandi aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti í lok árs 2010, felur í sér að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um allt að 30% til ársins 2020, miðað við árið 2005, með tíu lykilaðgerðum.

Þær eru:

 • Að gert verði nýtt alþjóðlegt samkomulag sem miði að raunverulegum samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, með virkri þátttöku allra ríkja eftir getu og aðstæðum og stuðningi við þau ríki sem verst munu verða úti vegna loftslagsbreytinga.
 • Að samkomulag miðist við að hækkun á meðalhita vegna loftslagsbreytinga fari ekki yfir 2°C.
 • Að Ísland taki á sig sanngjarnar byrðar í loftslagsmálum, sambærilegar við það sem önnur þróuð ríki taka á sig, að teknu tilliti til aðstæðna og möguleika til að takmarka losun og auka bindingu.
 • Að íslenskt atvinnulíf búi við sambærilegt umhverfi og gildir innan ESB hvað loftslagsmál og atvinnulíf varðar og Ísland geti tengst með virkum hætti alþjóðlegum kolefnismörkuðum.
 • Að viðurkennt sé að notkun endurnýjanlegra orkugjafa og nýrrar tækni á sviði orkumála og orkusparnaðar séu lykilþættir við lausn loftslagsvandans.
 • Að endurheimt votlendis verði viðurkennd aðgerð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Ísland hefur lagt fram tillögu þess efnis og var gengið frá tæknilegri skilgreiningu hennar á fundinum í Cancún. Samþykkt tillögunnar bíður samkomulags um framhald Kýótó-bókunarinnar.
 • Stuðningur verði aukinn á alþjóðavísu við þróun og yfirfærslu á loftslagsvænni tækni og þekkingu.
 • Að bæði konur og karlar taki þátt í ákvarðanatöku um loftslagsmál og kynjasjónarmið séu höfð til hliðsjónar í allri umræðu og aðgerðum sem snúa að loftslagsbreytingum.

Stór skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga var gefin út árið 2004 af Norðurskautsráðinu. The Arctic Climate Impact Assessment má nálgast hér.

Hér má svo sjá yfirlit yfir stefnumörkun Íslands í loftslagsmálum. 


Svæðisbundið samstarf

Ísland leggur áherslu á svæðisbundið samstarf við nágrannaríki beggja vegna Atlantshafs og í norðri. Markmið þessa samstarfs er að tryggja stöðugleika á svæðinu og efla samvinnu um sameiginleg viðfangsefni á norðurslóðum, ekki síst í umhverfis- og auðlindamálum.

Helstu samtök og stofnanir sem Ísland á sæti í:

 

 
         

 

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal