Norðurslóðir á Íslandi

Málefni norðurslóða hafa á undanförnum árum orðið fyrirferðameiri jafnt á alþjóðavettvangi sem innanlands. Tengist það ekki síst loftslagsbreytingum, umræðum um nýtingu og vernd náttúruauðlinda, landgrunns- og fullveldiskröfum, samfélagsbreytingum og opnun nýrra siglingaleiða.

Ísland hefur ríkra hagsmuna að gæta enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða. Þetta er einstakt á meðal ríkja Norðurskautsráðsins. Málefni norðurslóða snerta næstum allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu.

“Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki þar sem stór hluti efnahagslögsögunnar er innan norðurslóða. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans. Ísland mun gegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019– 2021. Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland mun á vettvangi Norðurskautsráðsins einkum leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál og málefni hafsins. Í samræmi við samþykkta norðurslóðastefnu Íslands verður sérstök áhersla lögð á réttindi frumbyggja og jafnrétti kynjanna.” (Stjórnarsáttmáli)

Ísland leggur áherslu á að tryggja sjálfbæra og friðsamlega þróun á norðurslóðum á sama tíma og augu beinast í ríkari mæli að svæðinu. Loftslagsbreytingar eru óvíða sýnilegri en á norðurslóðum - hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil - og umhverfisbreytingar hafa áhrif um allan heim.

Alþjóðleg samvinna ríkja er lykillinn að því að takast á við þessar breytingar. Fyrir þær fjórar milljónir manna sem búa á þessum slóðum er áríðandi að spornað verði við neikvæðum áhrifum þessara breytinga og þau tækifæri sem í þeim kunna að felast verði nýtt með sjálfbærni að leiðarljósi. Samspil umhverfisverndar og auðlindanýtingar verður að vera í jafnvægi.

Norðurskautsráðið

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með Ottawa yfirlýsingunni og er mikilvægasti fjölþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Stofnríkin eru átta: Ísland, Danmörk (Grænland), Finnland, Noregur, Svíþjóð, Kanada, Bandaríkin og Rússland.

Auk stofnríkjanna eiga sex samtök frumbyggja á Norðurslóðum aðild að ráðinu. Alþjóðasamtök Aleúta (AIA), Norðurskautsráð Atabaska (AAC), Alþjóðaráð Gwich'in-þjóðarinnar (GCI), Norðurskautslæg svæðissamtök Inúíta (ICC), Samtök þjóða í Rússlandi sem eiga uppruna sinn á norðurslóðum (RAIPON) og Samaráðið. Fulltrúar frumbyggja hafa þannig rödd innan ráðsins og gegna ráðgefandi hlutverki, en án atkvæðisréttar. Frekari upplýsingar um samtök frumbyggja - https://arctic-council.org/index.php/en/about-us/permanent-participants

Áheyrnaraðilar eru alls 38 talsins í þremur flokkum, 13 ríki, 13 fjölþjóðlegar stofnanir og 12 önnur samtök. Þátttaka áheyrnaraðila fer að mestu í gegnum vinnu þeirra með vinnuhópum Norðurskautsráðsins. Frekari upplýsingar um áheyrnarfulltrúa - https://arctic-council.org/index.php/en/about-us/arctic-council/observers

Fastaskrifstofa ráðsins var sett á laggirnar árið 2013 til að sinna stjórnsýslu ráðsins, varðveita stofnanalega þekkingu, styrkja upplýsingamiðlun og veita ráðinu almennan stuðning. Skrifstofan er í Tromsö í Noregi.

Norðurskautsráðið veitir ekki styrki til verkefna. Verkefni eru fjármögnuð af einu eða fleiri norðurskautsríkja. Sum verkefni er einnig fjármögnuð af öðrum tengdum aðilum.

https://arctic-council.org/index.php/en/

Matskýrslur og leiðbeinandi tillögur Norðurskautsráðsins eru afrakstur greiningarvinnu vinnuhópa. Ákvarðanir á vettvangi ráðsins eru teknar í einu hljóði norðurskautsríkjanna átta að loknu samráði við þau samtök frumbyggja sem aðild eiga að ráðinu. Norðurskautsráðið er ekki framkvæmdaaðili og sér því ekki til þess að ráðgefandi eða leiðbeinandi yfirlýsingum sé framfylgt. Ábyrgð liggur alfarið á herðum hvers ríkis fyrir sig.

Samkvæmt Ottawa yfirlýsingunni frá 1996 felur starfsvið Norðurskautsráðsins ekki í sér umfjöllun um öryggismál sem varða hernað og tengd umsvif á svæðinu. Norðurskautsráðið er ekki framkvæmdaaðili og sér því ekki til þess að ráðgefandi eða leiðbeinandi yfirlýsingum sé framfylgt. Ábyrgð liggur alfarið á herðum hvers ríkis fyrir sig.

Starfsemi ráðsins

Vinnuhópar

  • Þungamiðjan í starfi Norðurskautráðsins fer fram í sex vinnuhópum og hefur framlag þeirra til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum verið ómetanlegt.
  • Vinnuhópur um aðgerðir gegn efnamengum (The Arctic Contaminants Action Program (ACAP)) hvetur til og styður við aðgerðir til að draga úr útblæstri og annarri mengun.
  • Vinnuhópur um vöktun og greiningu (The Arctic Monitoring and Assessment Programme (AMAP)) vaktar náttúru, vistkerfi og samfélög sem og veitir stjórnvöldum vísindalega ráðgjöf varðandi mengun og áskoranir vegna loftslagsbreytinga.
  • Vinnuhópur um verndun lífríkis (The Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF)) fjallar um og fylgist með líffræðilegum fjölbreytileika og reynir að tryggja sjálfbærni lífríkis á svæðinu.
  • Vinnuhópur um varnir, viðbúnað og viðbrögð við umhverfisvá (The Emergency Prevention, Preparedness and Response Working Group (EPPR)) vinnur að verndun náttúru og lífríkis gegn vá og áhrifum mengunarslysa.
  • Vinnuhópur um verndun hafsvæða (The Protection of the Arctic Marine Environment (PAME)) vinnur að vöktun, verndun og sjálfbærri nýtingu hafsins.
  • Vinnuhópur um sjálfbæra þróun (The Sustainable Development Working Group (SDWG)) styður við sjálfbæra þróun og velferð samfélaga á svæðinu.

Fastaskrifstofur tveggja vinnuhópa ráðsins - vinnuhópur um verndun lífríkis (CAFF) og vinnuhópur um málefni hafsins (PAME) - eru staðsettir á Akureyri. Í norðurslóðastefnu Íslands er lögð áhersla á að tryggja að hluti af starfsemi Norðurskautsráðsins sé vistaður hér á landi.

Aðgerða- og sérfræðihópar

Norðurskautsráðið getur einnig stofnað til verkefna – eða sérfræðihópa sem standa fremur stutt og vinna að mjög afmörkuðum málefnum. Dæmi um slíka hópa eru verkefnahópar um vísindasamstarf, málefni hafsins, fjarskiptainnviði og sérfræðihópur um sót og metan.

Á vettvangi ráðsins hafa verið gerðir þrír lagalega bindandi samningar, um leit og björgun, um varnir gegn olíumengun og um eflingu alþjóðlegrar vísindasamvinnu.

Hverju hefur ráðið áorkað?

Norðurskautsráðið gefur reglulega út skýrslur með nýjustu rannsóknum og mati á ástandi náttúru, lífríkis og vistkerfa í gegnum vinnuhópa sína.

Á vettvangi ráðsins hafa verið gerðir þrír lagalega bindandi samningar um

a) leit og björgun (Agreement on Cooperation on Aeronautical and Maritime Search and Rescue in the Arctic, Nuuk, Greenland, 2011 Ministerial Meeting

b) varnir gegn olíumengun (Agreement on Cooperation on Marine Oil Pollution Preparedness and Response in the Arctic, Kiruna, Sweden, 2013 Ministerial Meeting

c) eflingu alþjóðlegrar vísindasamvinnu (Agreement on Enhancing International Arctic Scientific Cooperation, Fairbanks, Alaska, 2017 Ministerial meeting).

Formennska í ráðinu er tvö ár í senn og færist á milli norðurskautsríkjanna átta. Formennskan var fyrst í höndum Kanada (1996-1998), þá Bandaríkin, Finnland, Íslands, Rússland, Noregur, Danmörk og Svíþjóð. Önnur umferð formennskunnar hófst með Kanada árið 2013. Bandaríkin luku formennsku sinni og nú í maí 2019 lauk formennsku Finna með viðtöku Íslands.

Hönnun, Forritun & Hýsing Arctic Portal