Kínversk-norræna norðurslóðamiðstöðin

cnarc sitemynd

Þann 10. desember 2013 skrifuðu forsvarsmenn sex stofnana á Norðurlöndum undir samstarfssamning við Heimskautastofnun Kína (Polar Research Institute of China) og þrjár aðrar kínverskar stofnanir um stofnun Kínversk-norrænnar norðurslóðamiðstöðvar (China-Nordic Arctic Research Center). Vefur CNARC.

Undirritun samningsins fór fram við formlega opnun miðstöðvarinnar í Shanghai en hana sóttu aðilar frá opinberum stofnunum í Kína og frá Norðurlöndunum, auk fræðimanna sem stunda norðurslóðarannsóknir. Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís tók þátt í opnunarathöfninni og undirritaði fyrrgreindan samning fyrir hönd Rannís.

Hlutverk nýrrar miðstöðvar er að efla rannsóknasamstarf með það fyrir augum að auka vitund, skilning og þekkingu á norðurslóðum og hnattrænum áhrifum breytinga á norðurslóðum. Auk þess mun miðstöðin stuðla að samvinnu tengdri sjálfbærri þróun á norðurslóðum og þróun Kína í hnattrænu samhengi. Þannig verður sjónum beint að norðurslóðum og málefnum þeirra á heimsvísu og munu rannsóknir meðal annars snúast um:

1. loftslagsbreytingar á norðurslóðum og áhrif þeirra,
2. auðlindir á norðurslóðum, flutninga og efnahagslega samvinnu,
3. stefnumótun og lagasetningar er varða norðurslóðir.

Samvinnan á grundvelli CNARC mun fara fram með: sameiginlegum rannsóknaverkefnum; þróun á samstarfsnetum og nýjum samstarfssviðum um norðurslóðarannsóknir sem skapi tækifæri fyrir kínverska og norræna fræðimenn þannig að þeir geti unnið að styrktum rannsóknaverkefnum; reglulegum ráðstefnum, þ.m.t. „China-Nordic Arctic Cooperation Symposium” og að lokum með miðlun á upplýsingum og greiðari menningarsamskiptum Kína og Norðurlandanna í tengslum við norðurslóðir.

Í tengslum við CNARC starfar ráðgjafanefnd sem samanstendur af forsvarsmönnum áðurnefndra stofnana. Eftir undirritun samningsins hittist nefndin í fyrsta sinn og ræddi hvernig starfsemi miðstöðvarinnar yrði háttað og áform á árinu 2014. Þar var m.a. ákveðið að „China-Nordic Arctic Cooperation Symposium“ yrði haldið á Akureyri á árinu.

Eftirfarandi aðilar standa að stofnun Kínversk-norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar:

Stofnanir á Norðurlöndunum

    Arctic Center of the University of Lapland (Finnland)
    Fridtjof Nansen Institute (Noregur)
    Rannsóknamiðstöð Íslands (Ísland)
    Nordic Institute of Asian Studies (Danmörk)
    Norwegian Polar Institute (Noregur)
    Swedish Polar Research Secretariat (Svíþjóð)

Kínverskar stofnanir

    Center for Polar and Oceanic Studies, Tongji University
    Research Institute of Polar Law and Politics, Ocean University of China
    Shanghai Institutes of International Studies            
    Strategic Studies Division, Polar Research Institute of China

Bæklingur um CNARC
Bæklingur um stofnanir í CNARC
Fréttabréf CNARC - 1. tbl., desember 2013

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal