Formennska í ráðinu er umfangsmikið verkefni en málefni þau sem Norðurskautsráðið fæst við tengjast inn í fjölbreytta málaflokka sem lúta að sjálfbærri þróun svæðisins og umhverfisvernd. Þar má helst nefna loftslagsbreytingar, nýtingu og vernd náttúruauðlinda ásamt samfélagsbreytingum og atvinnuþróun. Formennskan veitir Íslendingum einstakt tækifæri til að stuðla að því að áherslur okkar á sjálfbæra þróun, sjálfbær samfélög og vinna gegn áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum fái hljómgrunn meðal ríkja og samstarfsaðila ráðsins. Í því samhengi er ekki síst brýnt að beina sjónum að hafinu og orkumálum.


Formennskuáætlun Íslands, sem kynnt var í maí 2019, fer fram undir yfirskriftinni Saman til sjálfbærni á norðurslóðum og vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri og er áminning um að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist öðru fremur um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu. Lögð verður áhersla á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, fólkið á norðurslóðum og frekari styrking starfsemi Norðurskautsráðsins, jafnt inn á við sem út á við.


Utanríkisráðuneyti Íslands leiðir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Lesa meira hér: Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu 2019 - 2021