Norðurslóða-viðskiptaráðið

logo NordurslodaVidskiptaradidNorðurslóða-viðskiptaráðið var stofnað í maí 2013. Markmið þess er að stuðla að samstarfi ríkja norðurslóða á sviði viðskipta og búa í haginn fyrir þátttöku Íslendinga í atvinnutækifærum á svæðinu. Bakhjarlar ráðsins eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök iðnaðarins, Norðurslóðanet Íslands og utanríkisráðuneytið.

Starfsemi
Meðal starfssviða viðskiptaráðsins má nefna fiskveiðar, ferðamennsku, samgöngur, skipaflutninga, framleiðslu, nýtingu endurnýjanlegrar orku, olíu- og gasvinnslu, heilbrigðisþjónustu, menntun og nýsköpun. Markmiðið er að nýta hina miklu þekkingu og reynslu sem Íslendingar búa yfir á sviði verkfræði og tækni, fiskveiða, rannsókna og nýtingar orkuauðlinda auk þekkingar til uppbyggingar og reksturs innviða margvíslegrar starfsemi.
Ísland býr yfir öflugu samgöngukerfi á landi, sjó og í lofti. Hér er öflugt vegakerfi, góðar íslausar hafnir og góðar flugsamgöngur með fjórum alþjóðaflugvöllum. Landfræðilega er Ísland vel staðsett fyrir viðskipti við umheiminn.

Norðurslóða-viðskiptaráðið vinnur með yfirvöldum, rannsóknastofnunum og háskólasamfélaginu að viðskiptatækifærum á norðurslóðum. Starfsemi ráðsins fellur vel að áherslum ríkisstjórnarinnar en í stjórnarsáttmála ráðuneytis Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar frá maí 2013, kemur m.a. fram að ríkisstjórnin muni vinna að því að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum.

Aðilar
Viðskiptaráð Ísland er samtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í íslensku atvinnulífi og telur um 300 aðildarfélög. Öll sitja fyrirtækin þar við sama borð óháð atvinnugrein, stærð eða umfangi. Ráðið er sameiginlegur vettvangur fyrir íslenskt viðskiptalíf og vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum atvinnulífsins, eflingu frjálsrar verslunar og frumkvæði á sviði viðskipta.

Samtök iðnaðarins er samstarfsnet 1200 fyrirtækja og félaga sjálfstæðra atvinnurekenda. Samtök iðnaðarins vinna að hagsmunum iðnaðarins á öllum sviðum og í nánu samráði við fyrirtækin sjálf.

Norðurslóðanet Íslands er sameiginlegur vettvangur stofnana, fyrirtækja og einstaklinga á Íslandi sem vinna að málefnum norðurslóða og styður við samstarf þeirra á milli. Netið vinnur að auknum sýnileika og skilningi á hinum yfirgripsmiklu málefnum norðurslóða, þá bæði hvað varðar rannsóknir, samvinnu, framleiðslu og framkvæmdir. Þá er eitt af markmiðum Norðurslóðanetsins að einfalda upplýsingaflæði um norðurslóðamálefni með leiðbeiningum og ráðgjöf.

Utanríkisráðuneyti Íslands fer með utanríkismál landsins, þar með talið málefni á sviði norðurslóðasamstarfs.

Meðal annarra þátttakenda má nefna Arctic Services, Deloitte, Eimskip, Eykon, Hafnarfjarðarhöfn, Icelandair, Íslandsbanka, Íslenska aðalverktaka, Landsbankinn, Logos, Mannvit, Norðurflug, Háskólann í Reykjavík og Ursus.

Samstarfsráð
Norðurslóða-viðskiptaráðið mun vinna náið með viðskiptaráðum sem starfrækt eru milli Íslendinga og einstakra norðurslóðaríkja utan Kanada og Rússlands. Öllum er ráðunum ætlað það hlutverk að örva viðskipti, koma á tengslum og samstarfi milli fyrirtækja og forsvarsmanna þeirra, standa fyrir fundum og öðrum viðburðum sem eflt geta samvinnu viðkomandi landa ásamt því að annast þjónustu við aðildarfélaga. Millilandaráðin eiga í miklum samskiptum við sendiráð og ræðisskrifstofur landanna og hefur það styrkt grundvöll ráðanna.

Amerísk-íslenska viðskiptaráðið
Dansk-íslenska viðskiptaráðið
Finnsk-íslenska viðskiptaráðið
Færeysk-íslenska viðskiptaráðið
Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið
Norsk-íslenska viðskiptaráðið
Sænsk-íslenska viðskiptaráðið

 

 

Vefsíða: www.iacc.is

Tengiliður
Norðurslóða viðskiptaráðið
Borgartúni 35, 5. hæð
105 Reykjavík
Contact
Denne email adresse bliver beskyttet mod spambots. Du skal have JavaScript aktiveret for at vise den.
Tel: +354 510 7100

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal