MVS logo

Mannvirkjastofnun tók til starfa 1. janúar 2011 samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 sem tóku gildi þann sama dag. Nýja stofnunin tók við því hlutverki á sviði brunavarna og rafmagnsöryggismála sem Brunamálastofnun hafði áður, en fékk jafnframt það verkefni að hafa yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála. Mannvirkjastofnun er umhverfis- og auðlindaráðherra til aðstoðar hvað varðar brunamál, rafmagnsöryggismál og byggingarmál. Stofnunin er stjórnsýslustofnun sem stuðlar að samræmdu byggingareftirliti um allt land, meðal annars með gerð leiðbeininga, skoðunarhandbóka og með beinum íhlutunarrétti ef byggingareftirlit sveitarfélaganna er ekki í samræmi við ákvæði laganna. 

Ennfremur annast stofnunin löggildingu hönnuða og iðnmeistara og gefur út starfsleyfi fyrir byggingarstjóra og faggiltar skoðunarstofur á byggingarsviði. Stofnunin skal einnig sinna markaðseftirliti með byggingarvörum og taka þátt í gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði byggingarmála. Mannvirkjastofnun hefur jafnframt eftirlit með því að slökkvilið séu skipulögð, búin tækjabúnaði og skipuð mannskap sem hafi nægjanlega menntun og þjálfun til að sinna hlutverki sínu.

Hönnun, Forritun & Hýsing Arctic Portal