Landhelgisgæsla Íslands

LHG skjoldur opinber 2005

Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð árið 1926 og hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar frá upphafi gætt hagsmuna þjóðarinnar við verndun fiskimiðanna og björgunarstörf, stundum í kröppum dansi, eins og alkunna er. Þeir hafa einnig ávallt verið reiðubúnir til þess að aðstoða sjófarendur og fólk úti á landsbyggðinni, oft á tíðum við erfiðustu aðstæður, þegar öll sund hafa virst lokuð. Að auki gegna þeir lögum samkvæmt hinum margvíslegustu þjónustuhlutverkum við strendur landsins og á landgrunninu.

Helstu verkefni Landhelgisgæslunnar eru löggæsla og eftirlit á hafinu umhverfis Ísland, ábyrgð og yfirstjórn á leit og björgun á sjó og aðstoð við björgun og sjúkraflutninga á landi. Þá sinnir gæslan einnig sjómælingum og sjókortagerð, sprengjueyðingu, rekstri fjarskipta- og ratsjárstöðva og umsjón með öryggissvæðum og eignum NATO á Íslandi.

Verkefni á norðurslóðum

Alþjóðasamningur milli hinna átta ríkja Norðurskautsráðsins, um samstarf við leit og björgun á hafi og í lofti á norðurslóðum var undirritaður í Nuuk á Grænlandi árið 2011. Samningurinn var mikilvægt skref í samstarfi þjóðanna enda brýnt að bregðast við aukinni fyrirsjáanlegri umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum sem þar af leiðir. Í hinum nýja samningi eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta bera ábyrgð á og kveðið á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir.

Leitar- og björgunarsvæði Íslands er gríðarlega stórt eða 1,8 milljónir ferkílómetrar og ber Landhelgisgæslan ábyrgð á framkvæmd björgunaraðgerða innan svæðisins og kallar til aðstoðar aðrar þjóðir eftir þörfum og umfangi aðgerða. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar búa yfir fjölþættri reynslu og þekkingu á björgunaraðgerðum og þeim veðurfarslegu aðstæðum sem geta skapast á norðurslóðum til dæmis vegna vinda og íss og hafa því getu til að bregðast við þegar þörf er á aðstoð innan hafsvæðisins.

Landhelgisgæslan hefur fylgst náið með þróun mála á norðurslóðum og m.a. tekið þátt í að stýra og móta stefnu hvað varðar öryggi á hafinu í samstarfi við strandgæslur ríkja við Norður Atlantshaf. Markmið þeirra hefur fyrst og fremst verið að samhæfa og samræma aðgerðir þeirra og byggja upp þekkingu á þeim björgunarbúnaði og mannskap sem er til staðar. Verkefni strandgæslna eru afar fjölbreytt og viðamikil og má þar nefna leit og björgun, fiskveiðieftirlit ásamt því að bregðast við glæpastarfsemi á hafinu. Einn þáttur í samstarfi þjóðanna er framkvæmd leitar- og björgunaræfingarinnar Sarex Greenland sem Landhelgisgæslan tekur virkan þátt í með öðrum íslenskum björgunaraðilum.

Síðastliðin ár hefur Landhelgisgæslan tekið umfangsmiklum breytingum í þeim tilgangi að vera betur í stakk búin undir þær breytingar sem vænta má með opnun siglingaleiða og aukinni umferð skipa með margvíslegan farm sem og skemmtiferðaskipa. Tækjabúnaður hefur verið endurnýjaður og endurbættur, lögð hefur verið áhersla á alþjóðlegt samstarf og tengingar sem er grunnur þess að geta brugðist við á þessum slóðum og að hafa sem besta stöðumynd af hafsvæðinu á hverjum tíma.

Vefsíða

Nánari upplýsingar um störf og verkefni Landhelgisgæslu Íslands er að finna vefsíðu þeirra www.lhg.is.

Asgrimur L Asgrimsson DSC1727Tengiliður

Nafn: Ásgrímur L. Ásgrímsson

Starfsheiti: Framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs

Netfang: Denne email adresse bliver beskyttet mod spambots. Du skal have JavaScript aktiveret for at vise den.

Sími: 545 2114 / 860 2922

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal