Westfjords university logo

Háskólasetur Vestfjarða er lítil stofnun á háskólastigi sem sett var á stofn árið 2005 en tók til starfa í janúar 2006. Við Háskólasetrið sjálft starfa að jafnaði níu manns auk lausráðinna kennara. Í húsnæði Háskólaseturs starfa í heild yfir 50 manns við rannsóknir, kennslu og þjónustu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum. 

Háskólasetrið er fjarnámssetur sem þjónar um 100 fjarnemum, það starfrækir tvær alþjóðlegar námsleiðir á meistarastigi fyrir um 20 meistaranema hvor (Haf- og strandsvæðastjórnun frá 2008 og Sjávarbyggðafræði frá 2019) og litla einstaklingsmiðaða námsleið á meistarastigi í sjávartengdri nýsköpun. Þess utan býður Háskólasetrið upp á fjölbreytt sumarnámskeið.

Í gegnum fjarnámið sækja Vestfirðingar menntun án þess að þurfa að flytja úr heimabyggð sinni. Háskólasetrið sér fjarnemum fyrir fjarfundabúnaði, hópvinnuaðstöðu og lestrarsölum. Fjarnemarnir hafa að jafnaði verið um 100 á ársgrundvelli. Síðustu ár hefur þróunin verið í átt að fleiri og smærri hópum, en heildarfjöldi hefur haldist stöðugur.

Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun var sett á laggirnar í september 2008 af þáverandi menntamálaráðherra. Námsmenn útskrifast frá Háskólanum á Akureyri með Master of Resource Management (MRM) gráðu. Meistaranámið í Sjávarbyggðafærði hóf göngu sína 2019. Námsmenn útskrifast frá Háskólanum á Akureyri með Master of Arts (MA) gráðu.

Báðar námsleiðir eru alþjóðlegar, þverfaglegar og kenndar í lotum. Allar loturnar eru opnar þátttakendum frá íslenskum og erlendum háskólum og úr atvinnulífinu.

Meistaranám í sjávartengdri nýsköpun er einstaklingsmiðað nám í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og HA sem hefur það að markmiði að efla nýsköpun á Vestfjörðum. Auk þessa skipuleggur Háskólasetrið fjölda sumarnámskeiða á Vestfjörðum og stendur jafnframt fyrir sérhönnuðum námskeiðum fyrir innlenda og erlenda vettvangsskóla.

Háskólasetur Vestfjarða er stærsta stofnunin í Vestrahúsinu á Ísafirði og leiðandi í samstarfi stofnana í rannsóknaumhverfi Vestfjarða. Alla jafna sinnir Háskólasetrið þó ekki rannsóknum nema í samstarfi við rannsóknarstofnanir innan og utan Vestfjarða.

Háskólasetur Vestfjarða er aðili að alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á vegum Norðurslóðaháskólans (University of the Arctic), og hefur tekið þátt í verkefnum Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins.

Háskólasetur Vestfjarða leggur áherslu á gæðastarf og fylgir Bologna-kröfum evrópskra háskóla í samvinnu við innlenda og erlenda samstarfsháskóla sína.

Eftir áralangt samstarf um vettvangsskóla hefur School for International Training, SIT, frá Vermont/BNA víkkað út starsemi sína hjá Háskólasetri verulega á síðustu árunum. Frá 2016 er í boði misserisnám SIT hjá Háskólasetri og frá 2018 meistaranám í Loftslagsbreytingum og sjálfbærn á heimsvísu þar sem fyrsta önnin er kennd hjá Háskólasetri.

Háskólasetrið er ung og sveigjanleg stofnun. Starfsmenn leggja sig fram við að þjóna nemendum og rannsóknarfólki á Vestfjörðum sem allra best samhliða því að veita öllum þeim, sem eru utan Vestfjarða og vilja tengjast litlu en heillandi rannsóknarumhverfi á Vestfjörðum, fyrirtaks þjónustu.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Háskólaseturs Vestfjarða.

Tengiliður

Peter Weiss

Nafn: Peter Weiss
Starfsheiti: Forstöðumaður
Netfang: weiss[at]uw.is
Sími: 450 3045 / 869 3045
 
 
 
 
 
 
 
  
 
Frekari upplýsingar
Nafn: Ingi Björn Guðnason
Starfsheiti: Verkefnastjóri 
Netfang:  ingi[at]uw.is
Sími: 450 3042 / 869 4374
HeimilisfangSuðurgötu 12, 400 Ísafjörður, Ísland
Háskólasetur Vestfjarða 
 
 

Hönnun, Forritun & Hýsing Arctic Portal