Steingrmur„Það er nóg að rannsaka og verður sennilega aldrei búið.“

Steingrímur Jónsson haffræðingur starfar sem prófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Sem ungur maður stefndi hann á að verða eðlisfræðingur og flytja erlendis en í námi í Danmörku valdi hann haffræði vegna nálægðar fagsins við náttúruna og flutti eftir námið á æskuslóðirnar á Akureyri til að starfa sem haffræðingur.   

Sveiflur í sjónum við Ísland

Helsta viðfangsefni Steingríms er sjórinn í kringum Ísland og það sem hefur áhrif á hann og það sem hann hefur áhrif á. „Sjórinn sem hingað kemur er annars vegar kaldur og lítið saltur Pólsjór úr Norður-Íshafinu og hins vegar heitur og saltur Atlantssjór úr suðri. Þetta eru mjög ólíkar sjógerðir og því geta þær valdið sveiflum, en það fer eftir styrk straumanna og eiginleikum sjógerðanna sem þeir flytja en þeir eru breytilegar í tíma.“ Steingrímur segir sveiflurnar gjarnan vera meiri við Ísland heldur en t.d. við Noreg þar sem er yfirleitt heitur og saltur Atlantssjór ríkjandi. Þegar streymi Pólsjávar er mikið getur það valdið köldu tímabili bæði í sjó og á landi og jafnvel hafís úti fyrir öllu Norðurlandi eins og Íslendingar upplifðu á árunum 1965-70. Straumarnir hafa því ekki bara áhrif á það sem er að gerast í sjónum heldur líka á loftslagið. Steingrímur segir að í dag sé mikið af frekar heitum og söltum sjó að koma með straumum að sunnan en hann er næringarríkari en sjórinn úr Norður-Íshafinu. Framleiðni á lífrænum efnum er meiri í þessum sjó sem streymir norður fyrir land í gegnum Grænlandssundið, með honum reka egg og seiði þannig að þegar straumurinn er sterkur norður fyrir land er oft meira af fiskungviði fyrir norðan vegna framboðs af fæðu. „Þetta hefur því mjög mikil áhrif á lífríkið kringum landið,“ segir Steingrímur.

Hita-seltu-hringrásin

„Það er oft talað um að sjórinn hér sé að hlýna en í raun er sjórinn við Ísland yfirleitt að kólna vegna þess að hann er að gefa frá sér varma upp í andrúmsloftið þar sem hann er heitari en andrúmsloftið. Við það missir sjórinn orku og kólnar.“ Steingrímur segir að þegar talað er um loftslagsbreytingar er oft talað um hita-seltu-hringrásina: Heiti sjórinn úr suðri kólnar og verður ferskari á leið sinni norður vegna þess að það er meiri úrkoma en uppgufun, en vegna þess hvað hann kólnar mikið þá þyngist hann og endar með að sökkva. Hluti af Atlantssjónum breytist þannig í djúpsjó sem síðan streymir aftur út yfir hrygginn á milli Grænlands og Skotlands. Steingrímur segir að í þessu þarf að vera jafnvægi, það er segja að jafn mikið af sjó þarf að streyma inn og út og hefur það verið staðfest með mælingum. En það er talið að þetta flæði muni hægja á sér vegna þess að ferska vatnið sem kemur úr Norður-Íshafinu og bráðnun jökla muni hafa þau áhrif að vatnið verði ekki eins salt og eigi því erfiðara með að sökkva, sem myndi valda minni myndun af djúpsjó og hafa áhrif á alla hringrásina. Í þessum aðstæðum myndi sennilega kólna á Íslandi þar sem það myndi hægja á innstreymi Atlantssjávar yfir Grænlands-Skotlands hrygginn. En Steingrímur segir mælingarnar ekki sýna merki um þessa þróun enn þá „við erum búin að mæla þetta í 20 ár og erum ekki að sjá að þetta sé að gerast. Þvert á móti hefur flæðið aukist en þetta undirstrikar í raun að við vitum ekki nóg. Grænlandsjökull er að bráðna og ferskvatn hefur bæst við á þessu svæði. Því er haldið áfram að mæla vegna þess að það er mikilvægt að fylgjast með þessu. Það er nóg að rannsaka og verður sennilega aldrei búið.“

 

„Það er nauðsynlegt fyrir þá sem starfa í haffræði á Íslandi að skilja hvað er að gerast í Norður-Íshafinu og í hafinu fyrir sunnan land því þetta eru þau svæði sem hafa langmest áhrif á hafið við Ísland.“

 

Mikilvægt að viðhalda mælingunum fyrir rannsóknir  

Megin starfsemi Hafrannsóknastofnunar byggir á vöktunarverkefnum af ýmsum toga. Meðal annars á umhverfisþáttum í hafinu í kringum Ísland. Farið er ársfjórðungslega í rannsóknarleiðangra þar sem hitastig og selta er mæld á föstum sniðum út frá landinu og hafa mælingarnar staðið í 50 ár. Steingrímur segir „mikið er til af gögnum og Íslendingar hafa staðið sig vel í gagnaöflun fram að þessu. Það er lykilatriði þegar þú ert að rannsaka loftslagsbreytingar að hafa langtímavöktun til að fylgjast með hvað er að gerast til að geta sagt hvort hægt sé að meta langtímabreytingar.“

Aðhefst ýmislegt

Steingrímur starfar ekki einungis sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun heldur er hann einnig prófessor við Háskólann á Akureyri, þar kennir hann haf- og veðurfræði ásamt öðrum fögum og hefur gert í yfir 30 ár. Hann hefur einnig kennt við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Steingrímur hefur líka setið í Loftslagsráði sem leiðbeinir stjórnvöldum með aðgerðir í loftslagsmálum. Hann segir það ansi stórt og viðamikið svið þar sem sérfræðingar, hagsmunaaðilar og fulltrúar háskólanna funda hálfs mánaðarlega.

Náttúran kallaði

Steingrímur ætlaði upphaflega að verða eðlisfræðingur og fékk hann eftir stúdentspróf eins árs styrk til að fara til Bandaríkjanna „ég gat ekki beðið eftir að komast til útlanda,“ segir hann og hlær. Hann lauk síðan BS gráðu í stærðfræði og eðlisfræði og í kjölfar þess meistaraprófi í haffræði frá Kaupmannahafnarháskóla „en mig langaði að vera meira úti og í tengslum við náttúruna sem varð til þess að ég fór í haffræði, það var þó tilviljun eins og stundum er. Eftir það fékk ég styrk frá Norðurlandaráði til að fara í doktorsnám til Bergen og lauk doktorsprófi í haffræði þar en doktorsritgerðin fjallaði um hafstrauma í höfunum norðan Íslands og í Framsundi milli Svalbarða og Grænlands. En hann segir Bergen vera hálfgert Mekka haffræðinnar á norðurlöndunum. Þessi reynsla reyndist honum góður bakgrunnur fyrir það sem tók við þegar hann kom heim til Íslands og fór að vinna fyrir Hafrannsóknastofnun og Háskólann á Akureyri. Síðan hef ég gaman af því að ferðast og kynnast nýjum aðstæðum og það kom í ljós að haffræðin er kjörið tækifæri til þess þar sem að hafið hefur engin landamæri,“ segir Steingrímur.

Ferðast nú fyrir fjölskylduna

Á sama tíma og Steingrímur stundar mælingar á hafstraumum í kringum Ísland hafa börnin hans flutt til bæði Bandaríkjanna og Danmerkur og því ferðast Steingrímur og eiginkona hans, Árún Kristín Sigurðardóttir, þangað til að hitta börnin sín og barnabörn. Steingrímur fær því tækifæri til að svala ferðaþorstanum reglulega í heimsóknum til þeirra.

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal