RektorSamfélögin skipta mestu máli

Háskólinn á Akureyri (HA) hefur verið leiðandi í norðurslóðafræðum síðustu áratugi og stefnir skólinn á að þróast enn frekar á því sviði. Eyjólfur Guðmundsson, rektor háskólans segir samfélagslega nálgun eiga að hljóta meiri athygli þegar kemur að umfjöllun um norðurslóðir.

Félagsvísindi ættu að vera í forgang

Eyjólfur segir umræðu um norðurslóðir hafa einblínt á náttúruvísindi en hann telur að áherslan ætti að vera á samfélögin, „Í blöðum hafa norðurslóðir alltaf snúist um bráðnun jökla og sífrera en á þessu svæði búa um fjórar milljónir íbúa sem eru að kljást við samfélagsleg verkefni sem þarf að huga að.“ Meðal stærstu vandamálanna sem íbúar á þessum slóðum kljást við er skortur og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og fjarskiptaleiðum sem önnur ríki telja sjálfsögð.

Háskólinn á Akureyri skrifaði nýverið undir samstarfssamning við Háskóla Grænlands (Ilisimatusarfik) um samstarf og miðlun þekkingar og reynslu HA af fjarnámstækni. Eyjólfur segir markmiðið vera að norðlægari skólar geti deilt með sér námsefni og þekkingu og að Háskólinn á Akureyri geti verið leiðandi í því hlutverki. Norðurslóðamál hafa verið undirtónn í öllu starfi háskólans síðustu áratugi og segir hann mikla áherslu vera á nám í hug- og félagsvísindum. Þar á meðal heimskautarétti sem er þverfagleg námsleið í stjórnarháttum, nýtingu náttúruauðlinda og réttindum frumbyggja. „Það er þessi samfélagslega nálgun sem er svo mikilvæg og fólk gleymir að horfa til þegar það hugsar um norðurslóðir,“ segir Eyjólfur. Hann sér fyrir sér að það muni bætast við önnur námsleið tengt norðurslóðum í náinni framtíð.

Horfum til norðurs

Í 19. Lið í stefnu Íslands í málefnum norðurslóða er fjallað um eflingu Akureyrar sem norðurslóðamiðstöð Íslands. Á Akureyri er fjöldi stofnanna og fyrirtækja sem falla undir norðurslóðastarf og teljast hluti af þessum klasa. Eyjólfur segir lykilatriði fyrir Háskólann á Akureyri að vinna í nánu samstarfi við stofnanir á háskólasvæðinu þar á meðal Norðurslóðanet, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, starfshópa Norðurskautsráðsins PAME og CAFF og Jafnréttisstofu. „Jafnréttisstofa er meðal þessara stofnanna vegna þess að jafnréttismál eru gríðarlega mikilvægur málaflokkur á norðurslóðum þar sem mörg samfélög á þessu svæði hafa ekki náð sama árangri og Ísland,“ segir Eyjólfur.

Þegar Eyjólfur tók við starfi rektors árið 2014 áttaði hann sig á því hversu mikilvægt er að í íslenskri stjórnsýslu sé skýr stefna í norðurslóðamálum. „Ég kveikti á þeirri peru að við búum við sömu verkefni og togstreitu eins og á öðrum stöðum á norðurslóðum til dæmis Noregi og Kanada, togstreitan milli norðurs og suðurs á Íslandi er sú sama. Það er annað veðurfar á norðurhlutanum en suðurhlutanum og við á norðurlandi samsömum okkur raunverulega betur með þeim eiginlegu norðlægu slóðum. Oft er einblínt á að horfa til suðurs en ég vil horfa til norðurs. Ég lít svo á að það sé formlega búið að gera Akureyri að miðstöð norðurslóða í stefnu stjórnvalda og byggja upp þá starfsemi sem hér er en ég tel að það væri ekki til skaða fyrir okkur að gera miðstöðina sýnilegri í umræðunni,“ segir Eyjólfur.

Rannsóknir skólans byggja á norðurslóðum

Rannsóknir HA byggja að miklu leyti á því sem er að gerast á norðurslóðum. Þar á meðal er verið að skoða hafstrauma í norður íshafi, heilbrigði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, byggðastefnu og aðgengi að menntun. „Tenging okkar við norðurslóðirnar snýst ekki bara um námsgráðurnar sem við veitum  heldur þá staðreynd að öll okkar starfsemi er meira og minna hluti af því samfélagi sem við erum að reyna að skapa hér á norðurslóð. Einnig hvernig við getum verið fyrirmynd og aðstoðað önnur samfélög á norðurslóðum til að skapa sitt aðgengi,“ segir Eyjólfur. Hann segir stærstu áskorun samfélaga sem búa við frumstæðar aðstæður á norðurslóð ekki vera aðgengi að tækni heldur vilja stjórnvalda til að leggja fjármuni í að byggja upp tæknina. „Íslendingar hafa kannski ekki áttað sig á að það er ekki sjálfgefið að hér sé gott líf. Ef við skoðum staðsetningu okkar á hnettinum og förum austur til vesturs og skoðum allar byggðir sem eru á sömu breiddargráðu þá komumst við að því að þar eru hvorki stórar byggðir né miklar borgir nema í norðurhluta Noregs og kannski í norðurhluta Svíþjóðar og Finnlands."

Líður vel í snjó

Eyjólfur menntaði sig í hagfræði við Háskóla Íslands og fór í framhaldsnám til Bandaríkjanna í umhverfis og auðlindahagfræði. Hann segir uppruna sinn sem Íslending hafa leitt hann í nám í nýtingu auðlinda sérstaklega þar sem á námstíma hans var sjávarútvegur Íslendinga okkar helsta tekjulind. Eyjólfur fluttist norður um aldamótin til að starfa við Háskólann á Akureyri. Ákvörðunina byggði hann á því hvar hann gæti starfað á sínu fagsviði í stofnun sem væri enn í mótun og varð Háskólinn á Akureyri fyrir valinu, einnig segist hann aldrei hafa kunnað vel við veðrið á suðurlandi og alltaf liðið vel í snjó. En eftir drjúga stund í starfi við HA bauðst Eyjólf starf hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP. „Atvik urðu þannig að ég kynntist CCP sem auglýstu eftir hagfræðing og ég vissi að ef ég myndi ekki prófa myndi ég sjá eftir því,“ segir hann. Má ætla að það hafi verið rétt ákvörðun því Eyjólfur starfaði hjá CCP í sjö ár áður en hann snéri aftur til Akureyrar og tók við sem rektor Háskólans á Akureyri árið 2014. „Ég er einn af fáum aðilum sem er alinn upp á suðvesturhorninu og hef flutt til Akureyrar tvisvar.“ segir hann. Eyjólfur segir Akureyri heilla sig mjög sem staður til að búa á með nálægð við náttúru og auðveldar samgöngur. „Eina sem ég saknaði var beintenging við erlendar borgir sem er kominn núna með komu nýs flugfélags. Með tengingu við alþjóðlega flugvelli þá er Akureyri orðin álitlegasti búsetukosturinn fyrir mig,“ segir Eyjólfur.

Framtíðarsýn rektors

Eyjólfur segir HA vera að móta nýja stefnu fyrir háskólann en gefur ekki í skyn hversu lengi hann stefnir á halda áfram sem rektor. „Þó ég sé vissulega farinn að spá í framtíðina þá hefur covid og heimsástandið kennt mér að það borgar sig ekkert að gera of stór plön og núna er minn helsti fókus að leiða Háskólann á Akureyri inn í næsta stefnumótunarferli. Við erum að koma út úr núverandi stefnumótun og gæðaúttektum á mjög föstum og góðum grunni. Sjáum að það hefur gengið vel, stofnunin stækkað og við geta bætt við okkur mannauð. Við höfum vaxið gríðarlega í nemendafjölda en á sama tíma náð að halda uppi rannsóknum hjá okkur. Nýjasta könnunin sem kom frá stofnun ársins sýnir okkur að ánægja og starfsandi er að batna og er í samanburði við aðrar sambærilegar stofnanir á góðum stað. Nú erum við með þennan grunn og þurfum að hugsa hvar ætlum við að vera árið 2030. Núverandi stefna er í gildi til 2023 sem er í raun ekki á morgun heldur hinn,“ segir Eyjólfur og hlær.

 

Meðfylgjandi ljósmynd er tekin af Auðun Níelssyni ljósmyndara. 

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal