EmblaÍ málsvari fyrir norðurslóðaklasa Akureyrar

Norðurslóðanet Íslands var stofnað árið 2013 og er ein af stofnunum norðurslóðaklasans í Borgum við Norðurslóð á Akureyri. Embla Eir Oddsdóttir hefur verið forstöðumaður Norðurslóðanets frá stofnun þess. Hún ásamt Tom Barry, forstjóra CAFF, mótuðu upphaflegu hugmyndina um starfsemina sem utanríkisráðuneytið styrkti til stofnunar og áframhaldandi starfsemi. Norðurslóðanet hefur frá stofnun þess unnið að fjölbreyttum verkefnum, þar á meðal að leiða verkefni um kynjajafnrétti á Norðurslóðum.

Hvernig byrjar Norðurslóðanet? 

„Undirbúningurinn hófst á árunum 2011-2012 en formleg starfsemi hófst í janúar 2013 og því erum við að vera 10 ára gömul. Ég og Tom Barry, framkvæmdastjóri CAFF, fórum að velta fyrir okkur hvernig við getum fengið norðurslóðastofnanirnar til að vinna betur saman og auka sýnileika þeirra. Við ætluðum að gera þetta í sjálfboðavinnu en utanríkisráðuneytið frétti af þessu og spurði hvað við myndum gera ef við fengjum styrk,“ segir Embla. Í kjölfarið settust Embla og Tom niður og skrifuðu verkefnalýsingu í samvinnu við kollega sína hjá öðrum stofnunum sem vinna að þessum málaflokki, og sendu umsókn til utanríkisráðuneytisins. Á sama tíma var álíka umsókn í gangi hjá Eyþingi, samtökum sveitarfélaga og því var ákveðið að steypa hugmyndunum saman og stofna sjálfseignarstofnun sem tók um eitt ár í undirbúningi. Gerður var samningur við utanríkisráðuneytið og fyrstu þrjú árin voru í raun tilraunaverkefni styrkt af Sóknaráætlun 2020 en í kjölfarið bauð utanríkisráðuneytið tveggja ára samning sem síðan hefur verið framlengdur tvisvar sinnum. Þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu var gerður samningur fjögurra ára. „Þeir héldu okkur mjög við efnið í verkefnum á meðan á formennskunni stóð og nýjasti samningurinn, frá september 2021, kveður á um fimm ár og möguleika á  að fjárframlag til okkar verði tvöfaldað á samningstímanum,“ segir Embla.

Hlutverkið að stuðla að og styrkja samstarf

„Norðurslóðanet er samstarfsvettvangur þeirra aðila sem eru að vinna að norðurslóðamálum hér á Akureyri en líka á Íslandi almennt. Við höfum þurft að þróa okkar hlutverk og verkefnin hafa kannski ekki alltaf endurspeglað hlutverkið því við höfum þurft að finna okkur fjármagn í gegnum alls kyns verkefni,“ segir Embla Eir. En samkvæmt nýjasta samningnum við utanríkisráðuneytið mun Norðurslóðanet styrkjast í hlutverki sínu sem andlit norðurslóðaklasans og þar af leiðandi leggja vinnu í að styrkja hann enn frekar.

Verkefni netsins eru fjölbreytt; allt frá því að skipuleggja fundi og viðburði yfir í að halda málstofur. Mikið samstarf var við utanríkisráðuneytið í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021, og er reyndar enn þrátt fyrir að formennskunni sé lokið . Þann 31. mars síðastliðinn héldu Norðurslóðanet og ráðuneytið samráðsfund í Háskólanum á Akureyri þar sem hafin var vinna við mótun framkvæmdaráætlunar fyrir nýja stefnu Íslands í norðurslóðamálum sem samþykkt var í maí 2021. Ásamt því er netið um þessar mundir í þremur verkefnum sem snúa að sjálfbærri þróun hjá Norðurskautsráðinu og er jafnréttisverkefnið eitt þeirra en þriðja fasa þess verkefnis lauk með útgáfu heilmikillar skýrslu um jafnrétti á Norðurslóðum (Gender Equality in the Arctic). „Það er stórt alþjóðlegt verkefni og við erum byrjuð á fjórða fasa þess. Innan verkefnisins skipuleggjum við vinnustofur sem snúa að ýmsum hliðum kynjajafnréttis. Einnig erum við í hugmyndavinnu með frumbyggjum sem miðar að því að vera með þematíska viðburði á netinu og jafnvel viðtöl um málefni sem frumbyggjar telja mikilvæg og þarft að vekja athygli á.“ Verkefni sem unnin eru í samstarfi við Norðurskautsráðið eru í bið eins og er vegna stríðsins í Úkraínu.

Meðal samstarfsfélaga Norðurslóðanets eru Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) en þau hafa styrkt kynningarverkefnið „Fólk í norðurslóðamálum“ síðast liðið ár. Fyrir verkefnið hefur Norðurslóðanet staðið að upplýsingaöflun um fyrirtæki, stofnanir og framleiðslu sem tengjast norðurslóðamálum á Norðurlandi eystra og tekið viðtöl við einstaklinga sem við viljum  kynna fyrir Íslendingum. „Við teljum mikilvægt að vekja athygli á því öfluga starfi sem einstaklingar og stofnanir eru að vinna að á öllu landinu sem við kemur norðurslóðamálum.“ Segir Embla. 

Námið í Háskólanum á Akureyri 

Áhugi Emblu á norðurslóðafræði kviknaði í Háskólanum á Akureyri í samfélags- og hagþróunarfræði þar sem Jón Haukur Ingimundarson mannfræðingur og fleiri kenndu. Í náminu var lögð áhersla á norðurslóðafræði og meðan á því stóð fór nemendahópurinn til Grænlands í viku og síðan til Síberíu þar sem þau dvöldu í mánuð. „Sem var algjörlega geggjað og ógleymanleg reynsla og raun aðal ástæðan fyrir því að ég hef haldist við þetta,“ segir Embla. „Að upplifa og sjá þann veruleika sem mörg þessi samfélög, þ.á.m. frumbyggjar, lifa við af ótrúlegri seiglu mun alltaf vera með mér og hefur haft mikil áhrif á hvernig ég hugsa um Norðurslóðir. Margir sjá þetta svæði eins og þar sé bara ís, birnir, olía og aðrar auðlindir en gleyma fólkinu og þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir.“

Eftir grunnnámið í HA tók Embla viðbótarár í University of Northern British Columbia háskólanum í Kanada í borg sem heitir Prince George. Embla lýsir þessum tíma sem „viðbótar lúxusári“ þar sem hún gat einblínt á það sem hún hafði mestan áhuga á eins og frumbyggjafræði og mannfræði. Hún segir þennan tíma hafa verið ótrúlegan og að Prince George hafi verið áhugaverður staður en þó ekki beint sjarmerandi. „Þetta var svona týpískur Boom-bust bær og maður fann það alveg. Blanda af  hefðbundnum starfsgreinum eins og skógarhöggi, olíuhreinsun og sögunarmyllum og hins vegar listamannalíf og háskólinn. Það er líka hátt hlutfall frumbyggja í bænum sem var mjög lærdómsríkt að kynnast og maður upplifði mjög mun í lífsgæðum á milli frumbyggja og annarra.“

Mastersritgerð á 10 dögum!

Eftir árið lærdómsríka kom Embla aftur til Akureyrar og vann hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. „Ég hef verið viðloðandi hana í ansi mörg ár. Svo fór ég til Englands í mastersnám í London School of Economics  og tók þar þverfaglegt nám í lög-, mann- og samfélagsfræði.“ Þegar hún kláraði staðnámið snéri hún til baka til Akureyrar og skrifaði mastersritgerð á 10 dögum. „Það var ekki sniðug nálgun,“ segir hún og hlær. Þrátt fyrir útskriftina úr mastersnáminu fór Embla beint í heimskautarétt í Háskólanum á Akureyri. „Ég var í fyrsta árganginum sem fór í gegnum samfélags- og hagþróunarfræðina og einnig í fyrsta árganginum í heimskautarétt. Það var líka þverfaglegt nám með stjórnmálafræði og hagfræði, þjóðarétti og félagsvísindum.“ Embla hefur lengi spáð í að fara í doktorsnám en hugsar sér að geyma það þangað til hún er kominn á eftirlaun, „ mér til dundurs og ánægju.“

Nýi samningurinn eykur öryggi stofnunarinnar

„Með nýjum samningi okkar við utanríkisráðuneytið erum við komin á dálítið nýjan stað. Við finnum fyrir miklum stuðningi bæði frá ráðuneytinu og okkar nærsamfélagi. Ég held að ég muni þess vegna halda eitthvað áfram við að reyna að koma Norðurslóðaneti á þann stað að við séum með tryggt fjármagn til rekstrar. Þetta hefur lengi verið ótryggt ástand, sérstaklega fyrir starfsfólk sem er í hlutastarfi í stuttan tíma. Ég myndi gjarnan vilja sjá að þessi stofnun hafi tryggari stöðu og sé hérna með kjarna af starfsfólki í fullu starfi. Svo kemur einhvern tímann að því að það verður gott að gamlir hundar komi  sér út og að nýtt blóð komi inn sem getur tekið stofnunina á næsta stig. En ég er ekki farin enn þá,“ segir Embla og hlær.

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal