Um bor i Sndrekanum a Norur IshafinuHóf ferilinn í norðurslóðamálum í Kína

Egill Þór Níelsson starfar hjá Rannís sem sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði og leiðir verkefni tengd Uppbyggingarsjóði EES og norðurslóðasamstarfi. Hann er frá Akureyri en bjó í Evrópu á meðan hann menntaði sig og fluttist síðan til Kína til að starfa í norðurslóðamálum. Hann segir samstarf Kína og Íslands tengt málefnum norðurslóða hafi verið í umræðunni þegar hann fluttist til Shanghai og fannst því kjörið að nýta tækifærið verandi uppalinn á norðurslóðum.

Áhuginn kviknaði í Kína

Egill fluttist til Kína árið 2011 þegar hann var að klára seinni mastersgráðuna sína: „Ég þurfti að finna mér eitthvað að gera sem gæti þótt bæði gagnlegt og áhugavert og fór að kynna mér samskipti Íslands og Kína. Þá sá ég að málefni norðurslóða voru kominn í forgrunn í tvíhliða samstarfi. Síðan kom í ljós að fyrsta sendinefnd Kína um norðurslóðarannsóknir var að fara til Íslands í ágúst 2011 þar sem átti að ræða um mögulegt samstarf, m.a. í formi Kínversk-íslenskrar/norrænnar norðurslóðamiðstöð (sem síðar var stofnað sem CNARC) um samstarf á sviðið félagsvísinda og sameiginlega kínversk-íslenska norðurslóðarannsóknastöð (síðar CIAO) fyrir norðurljósarannsóknir og fleira. Ég bjó þá til tillögu að verkefni sem hafði að gera með efnahags- og samfélagsþróun á norðurslóðum og reyndist passa inn í stærra verkefni sem Heimskautastofnun Kína (PRIC) var að vinna fyrir. Ég var ráðinn til sex mánaða sem gistifræðimaður við PRIC sem síðan vatt upp á sig. Þar var ég gistifræðimaður í átta ár, og þar af fimm ár sem framkvæmdastjóri Kínversk-norrænu Norðurslóðamiðstöðvarinnar,“ segir Egill.

Málefni norðurslóða hafa mikla þýðingu fyrir Ísland

Egill segist alltaf hafa vitað af þessum málaflokki, sérstaklega sem uppalinn Akureyringur. „Áhuginn kom af því þegar ég fór að kynna mér hversu fjölbreytt og áhugaverð málefni norðurslóða eru og hvað þau hafa mikla þýðingu fyrir Ísland í alþjóðlegu samstarfi. Einnig er þetta vettvangur þar sem við höfum margt fram að færa og aðilar vilja eiga samstarf við okkur. Það skiptir auðvitað miklu máli að vera á svæðinu og hafa sérþekkingu á málefninu. Þetta reyndist ásamt jarðvarma og sjávarútvegi það svið sem þótti áhugaverðast fyrir mögulega samstarfsaðila í Kína að horfa frekar til en að fara inn í einhverja grein sem Ísland er ekki beint leiðandi í.“

Sigldi með Snædrekanum

Árið 2012 fór kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn í rannsóknarleiðangur á norðausturleiðina um Norður-Íshafið meðfram Rússlandi og Noregi og kom í höfn á Íslandi. Egill annar tveggja Íslendinga um borð en í áhöfninni á leiðinni til baka frá Íslandi til Kína í gegnum miðleiðina þvert yfir Norður-Íshafið var Ingibjörg Jónsdóttir, haffræðingur um borð. Egill segir ferðina hafa verið mikla upplifun og er hún greinilega einn af hápunktum starfsins á meðan hann dvaldi í Kína. Þetta var í fyrsta skipti sem að Kínverjar fóru í rannsóknarleiðangur á norðausturleið og voru meðal annars skoðuð áhrif loftslagsbreytinga á hafís. Ferðin til Íslands tók sjö vikur en um borð voru 120 manns, vísindamenn og aðrir áhafnarmeðlimir. Snædrekinn endaði ferðina á Íslandi í boði íslenskra stjórnvalda og lagðist við bryggju í Reykjavík og Akureyri þar sem almenningi var boðið að fara um borð og skoða. Þessi ferð endurspeglar samvinnu landanna í málefnum norðurslóða og á meðan siglingunni stóð vann Egill ásamt öðrum m.a. í viljayfirlýsingum gagnvart bæði stofnun Kínversk-norrænu Norðurslóðamiðstöðvarinnar og einnig fyrir rannsóknarstöðina á Kárhóli í Reykjadal. „Svo voru málþing og fundir í kringum þessa heimsókn sem ég tók þátt í skipulagningu á gagnvart ásamt Rannís og undir leiðsögn forvera míns í starfi, Þorsteins Gunnarssonar, sem var lykilmaður í því m.a. ásamt norðurslóðadeild utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu. En siglingin, að sjá þetta landsvæði og upplifa að vera um borð með hartnær 120 kínverskum vísindamönnum og áhafnarmeðlimum og einum frönskum meistaranema, var mikil lífreynsla,“ segir Egill og hlær.

Leggur stund á doktorsnám í alþjóðasamskiptum og sagnfræði

Egill er með meistaragráður í bæði mannfræði og alþjóðaviðskiptum. Um þessar mundir er hann í doktorsnámi í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Lapplandi og sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið snýst um samskipti Kína og Norðurlandanna um málefni norðurslóða á 21. öldinni þegar mesta virknin hefur verið. „Ég hef verið að vinna doktorsverkefnið m.a. út frá fyrri reynslu og setja það í fræðilegt samhengi. Þetta er greinasafn sem ég er að vinna að og er búinn að fá þrjár af fjórum greinum birtar.“

Leiðandi í verkefnum Rannís tengd norðurslóðamálum

Eftir átta ára dvöl við Heimskautastofnun Kína flutti Egill aftur til Íslands. „Ég ákvað að koma til baka til að vera nær vinum og fjölskyldu. Ég hafði líka verið í burtu í um það bil tíu ár og búið í Shanghai, París og London og saknaði þess að vissu leyti að vera á Íslandi,“ segir Egill. Honum bauðst starf hjá Rannís árið 2019 og gegnir þar stöðu sérfræðings á rannsókna- og nýsköpunarsviði. Egill segir starf sitt hjá Rannís vera víðfeðmt. Hann er að hluta í verkefnum tengdum norðurslóðum. Þar af er stuðningur við Rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (Horizon Europe) sem hefur reynst stærsta einstaka fjármögnunarleið gagnvart styrkjum tengdum norðurslóðarannsóknum á Íslandi undanfarinn áratug. Egill er einnig fulltrúi Íslands í Norðurskautsvísindanefndinni (IASC) en Rannís hýsir skrifstofu hennar í Borgum á Akureyri. Ásamt því er hann í aðalstjórn í Heimskautaráði Evrópu (European Polar Board), fulltrúi í stjórn Norðurslóðanets og þátttakandi í samvinnunefnd um málefni norðurslóða. „ Þetta eru ansi margir vettvangar að koma saman og ekki allt upptalið,“ segir Egill.

 

Meðfylgjandi ljósmynd er úr einkasafni. 

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal