IMG 4341 1Hverjar eru afleiðingar hlýnunar á fiskveiðar Íslands?

Hreiðar Þór Valtýsson er sjávar- og fiskifræðingur og einn af stjórnendum náms í sjávarútvegi við Háskólann á Akureyri. Hann hefur starfað sem bæði brautarstjóri og kennari við háskólann en er þessa dagana í rannsóknarleyfi. Eitt helsta rannsóknarefni hans er að skoða áhrif loftslagsbreytinga á fisk og fiskveiðar við Ísland.

Verðmætar fisktegundir færast til með hlýnun

Hreiðar segir að því hafi verið spáð að Ísland og önnur heimskautalönd muni græða á hlýnun jarðar, peningalega séð. „Verðmætar fisktegundir færast til með hlýnun. Grænland og heimskautahluti Rússlands fá væntanlega meiri þorsk þar sem vistkerfið breytist úr því að vera heimskautavistkerfi með sjávarspendýrum og litlum fiskum yfir í að vera kaldtemprað vistkerfi þar sem stórar og verðmætar fisktegundir eins og þorskur þrífast.“ Verðmætar tegundir færast norður.

Hreiðar segir að því hafi verið haldið fram að breytingarnar megi t.d. sjá í aukningu makríls sem kom til Íslands upp úr aldamótunum en fór að veiðast í miklu magni árið 2008. „Makríllinn kom eins og bjargvættur fyrir okkur í hruninu og veiðarnar jukust mikið,“ segir Hreiðar.

Gróði eða tap af hlýnuninni?

Hreiðar segist vera kominn með grófar niðurstöður í rannsókn sinni á því hvort við græðum eða töpum í fiskveiðum á hlýnun jarðar. „Auðvitað er hlýnunarskeið ekki búið, það er ennþá hlýtt og kemur líklega til með að hlýna meira. Margir hafa á tilfinningunni að við séum að græða vegna þess að við fengum makrílinn en við misstum líka aðrar tegundir í staðinn eins og rækju og loðnu. Þær tegundir eru kaldsjávartegundir sem hafa í rauninni hopað. Hlýsjávartegundir eru að sækja á en kaldsjávartegundir hopa í staðinn. Síðustu tíu til tuttugu ár hafa verið léleg í loðnuveiðum þannig að hér á landi er verðmæti minnkunarinnar er eiginlega jafn mikið og af aukningunni.“ segir Hreiðar.

Hvers vegna sjávarútvegsfræði?

Hreiðar lærði líffræði við Háskóla Ísland og fór síðan erlendis í fiskifræði. Aðspurður hvers vegna hann fór í nám í þessum greinum segir hann: „Þegar aðrir krakkar fóru í sveit fór ég til ömmu og afa á Seyðisfirði þar sem afi var útgerðarmaður og átti frystihús. Ég byrjaði því að vinna smá í fiski á sumrin um 12 ára aldur. Ég hafði alltaf gaman af því, frelsið var mikið og góðar tekjur. Þetta yrði aldrei leyft í dag, það er svo mikil gæðavitund í sjávarútvegi að þú hleypir ekkert krökkum þar inn. Þarna gat ég líka hlaupið um, skoðað skrítna fiska og gert hluti sem eru bannaðir í dag. Þetta vakti samt áhuga á efninu, þannig lá alltaf fyrir að ég ætlaði að verða í einhverju tengdu fiski,“ segir Hreiðar.

Eftir námið vann Hreiðar sem vísindamaður hjá Hafrannsóknarstofnun og varð síðar starfsmaður við Háskólann á Akureyri.

Sjávarútvegsfræðin vel sótt

Í Háskólanum á Akureyri er boðið upp á BS nám í sjávarútvegsfræði sem er þriggja ára nám og hefur verið vel sótt af bæði fjarnemum og staðnemum. Nemendum í sjávarútvegsfræði er einnig boðið að bæta við sig einu ári í viðskiptafræði og útskrifast með tvær námsgráður. Hreiðar segir aðsóknina hafa verið góða núna en hafi verið orðin mjög dræm í kringum árið 2007. „Þá misstu Íslendingar áhuga á sjávarútvegi og þetta var að hverfa en svo tókum við okkur til ég og Hörður sem er fyrrum nemandi, með hjálp góðra aðila, og reistum námið við,“ segir Hreiðar.

Háskólinn á Akureyri býður einnig upp á mastersnám í sjávarútvegsfræði sem Hreiðar kennir. Hreiðar segir mikilvægt fyrir skólann að bjóða upp á framhaldsnám í sjávarútvegsfræði en það eigi eftir að þróast betur.

„Líf mitt er eins og teygja“

Hreiðar Þór er fæddur á Akureyri, bjó í Reykjavík þegar faðir hans var þar í háskóla, hann en fluttist líka til Reykjavíkur vegna námsins í líffræði og síðan til Vancouver til að læra fiskifræði. „Líf mitt er svona eins og teygja, ég byrjaði hér, fór síðan langt í burtu og svo skaust ég til baka,“ segir Hreiðar og hlær.

Hreiðar segir að samspil fiskveiða, loftslags og sjávarhita sem hann er að skoða um þessar mundir í rannsókn sinni sé áhugavert. „Það sem ég er helst að skoða er langtíma- og söguleg þróun fiskveiða á Íslandsmiðum. Þróun í aflamagni, fjölda skipa og tenging þeirra þátta við olíueyðslu sem aftur tengist loftslagsbreytingum. Ég hef farið nokkra hringi með þetta en aðal útgangspunkturinn er hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á veiðar við Ísland. Hvaða áhrif hafa þær haft og hvað áhrif munu þær hafa í framtíðinni.“

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal