asthildur 1Bæjarstjóri Akureyrar framarlega í norðurslóðamálum

Samtök bæjar- og sveitarstjóra á norðurslóðum, Arctic Mayors´ Forum, voru stofnuð haustið 2019 á Akureyri. Bæjarstjórinn á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, er fyrsti formaður samtakanna en gert er ráð fyrir að Norðmenn taki við formennskunni næsta vor. 

Sameiginleg baráttumál þrátt fyrir ólíka siði og menningu

Með Arctic Mayors´ Forum er komið á virku samstarfi bæjar- og sveitarstjóra á víðfeðmu svæði á norðurskautinu, allt frá Alaska og Kanada í vestri til Rússlands í austri. „Tilgangurinn er að við bæjarstjórarnir eigum í samstarfi um sameiginleg málefni, áherslur og baráttumál,“ segir Ásthildur. Eitt okkar helsta markmið okkar er að verða áheyrnarfulltrúar innan Norðurskautsráðsins sem myndi gera okkur kleift að koma ýmsum mikilvægum málum þar á dagskrá, til dæmis jafnréttismálum og nettengingu afskekktra byggðarlaga. Ég held að það skipti miklu máli að ræða málefni þjóðanna, landsvæðanna og fólksins sem býr á norðurslóðum. Sérstaklega í ljósi loftslagsbreytinga, breytinga á búsetu fólks og lífsháttum. Þetta snýst ekki bara um þjóðaröryggi, heri eða varnarmál, heldur einnig lífshættina og breytingarnar sem hlýnun jarðar hefur og mun að öllu óbreyttu leiða yfir okkur með síauknum þunga á næstu árum og áratugum, “ segir Ásthildur.

Ásthildur segir að það sé ákveðin áskorun að vera formaður í samtökunum vegna þess að fólkið á norðurslóðum búi við ákaflega ólíka menningu og siði. „Það er náttúrlega mismunandi menningarlæsi og siðir í hverju landi fyrir sig og dálítið öðruvísi að eiga við Rússa og Bandaríkjamenn heldur en Skandinava. Síðan eru tíð mannaskipti, bæjarstjórar eru náttúrulega eins og fótboltaþjálfarar, þeir koma og fara með reglulegu millibili þannig að það er ekki mikil samfella í mönnuninni, eða hefur allavega ekki verið.“

Skert þjónusta og kynjamisrétti algengt vandamál

Víða á norðurslóðum eru byggðir afskekktar með tilheyrandi samgönguvanda. Á Íslandi eru bæir á jaðarsvæðum sem eiga margt sameiginlegt með byggðum frumbyggja í Noregi og Alaska. Ásthildur segir að á þessum svæðum skorti margs konar þjónustu, meðal annars læknisþjónustu. Einnig er mikið um vitsmunaflótta, jafnréttismál í bágri stöðu, netsamband lélegt og fleira mætti telja. „Allir skipta þessir þættir raunverulegu máli og kalla á ekki bara rannsóknir og samtal um umhverfismál eða loftslagsbreytingar heldur praktískar lausnir,“ segir Ásthildur.

Algengt er að hámenntaðir einstaklingar flýi úr þessum samfélögum vegna skorts á störfum sem hæfa menntun þeirra. Konurnar eru yfirleitt meira menntaðar en karlarnir og sífellt að reyna að sækja sér menntun sem passar inn í samfélagið. Ásthildur segist hafa upplifað þetta þegar hún bjó á Vestfjörðum þar sem vinkonur hennar voru hámenntaðar og stöðugt að bæta við sig menntun, til að mynda á meðan þær voru í fæðingarorlofi. „En karlarnir eru oft og tíðum með mjög há laun, þetta eru veiðimannasamfélög og ofboðslega karllæg. Á Íslandi eru þetta til dæmis sjómenn og alls kyns verktakar. Í raun blasir við svipaður veruleiki og hjá Inúítum. Þegar við förum að ræða þetta á þessum svæðum þá kinka allir kolli,“ segir Ásthildur.

Akureyri Norðurslóðamiðstöð Íslands

Þegar talið berst að mikilvægi titils Akureyrar sem Norðurslóðamiðstöðvar Íslands segir Ásthildur: „Við erum höfuðborg landsbyggðarinnar. Hér erum við með háskóla, risastórt sjúkrahús, frábæra heilbrigðisþjónustu, fullkomið ráðstefnu- og menningarhús, svo eitthvað sé nefnt. Það er afar mikilvægt að við séum höfuðborg í þessum málaflokki því þekkingin liggur hér og tengslin við málefni landsbyggðarinnar eru bæði meiri og sterkari hér en í Reykjavík.“ Ásthildur segir einnig margt heilla við Akureyri. „Hér eru ofboðslega mikil lífsgæði, fyrirtaks menntun fyrir börn, unglinga og fullorðna, frábær þjónusta við fjölskyldufólk, fagurt umhverfi, stutt í afþreyingu bæði að sumri sem vetri og veðurfarið er náttúrlega eitthvað sem ég heillast mjög af. Þetta er bær í borg með alla þjónustu en þetta er ekki stórborg og þú ert ekki marga klukkutíma að fara á milli staða.“

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal