Soffa PAME1„Hafið hlýtur að vera okkur mikilvægt“

Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri PAME hefur miklar mætur á hafinu enda byggir ævistarf hennar á málefnum hafsins og lífríki þess. Hún er Akureyringur í húð og hár en fluttist vegna fjölskyldunnar til Reykjavíkur fyrir áratug síðan og var því sjóuð í fjarvinnu löngu fyrir heimsfaraldurinn.

Hvað gerir PAME?

„Pame stendur fyrir „Protection of the Arctic Marine Environment„, semsagt verndun á hafsvæðum norðurslóða,“ segir Soffía. PAME er starfshópur innan Norðurskautsráðsins sem vinnur aðallega við stefnumótun í málefnum hafsins á norðurslóðum. Skrifstofa PAME var opnuð í miðbæ Akureyrar árið 1999 þegar Soffía var ráðin framkvæmdastjóri. „Við nýtum okkur vinnu annarra vísindahópa Norðurskautsráðsins til að þróa stefnur, gerum síðan framkvæmdaráætlanir og vinnum verkefni út frá því,“ segir Soffía. PAME fylgir þessum stefnum eftir með verkefnum sem skiptast í nokkur þemu. „Það eru siglingar, verndarsvæði, olíu og gasvinnsla, praktísk notkun og skilgreining á vistkerfum og síðan erum við með þema sem tengist mengun í höfunum sem aðallega fjallar um plast og rusl. Við erum t.d. núna með fjögur verkefni sem tengjast plasti og rusli í höfum norðurslóða. Það kom stór og yfirgripsmikil framkvæmdaáætlun út í lok formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem lauk í maí síðastliðinn og núna erum við að framfylgja henni og þróa ný verkefni,“ segir Soffía.

Einföld leið til að læra um hafstraumana

Meðal verkefna sem tengjast plasti og rusli í höfum er samstarf PAME og Verkís sem þau kalla „plastic in a bottle“. Plasthylki með GPS staðsetningartæki eru sjósett og fylgst með hvert þau reka. Fyrsta hylkið var sett út af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra, fyrir tveimur árum og rak það til eyjar við Skotland. Soffía segir áhugaverðar niðurstöður hafa komið úr verkefninu þar sem önnur hylki hafi rekið aftur til baka þangað sem þau voru sett út. Verkefnið hefur í raun ekki vísindalegan tilgang heldur að vekja athygli almennings á hvað verður um rusl sem lendir í sjónum. „Þetta er einnig mjög sniðugt fyrir krakka til að fylgjast með og læra um hafstraumana,“ segir Soffía. Hægt er að fylgjast með hylkjunum á pame.is. 

Að starfa innan Norðurskautsráðsins

Soffía segir Norðurskautsráðið vera áhugaverðan samstarfsvettvang. „Allir verða vera sammála um ákvarðanir innan ráðsins sem gerir þetta svolítið skemmtilegt samstarf og hefur í raun og veru verið mjög farsælt. Við erum með Bandaríkin, Rússland, Kanada, Norðurlöndin og Ísland. Þessi stóru lönd eru oft á pólitískum vettvangi ekki sammála um margt sem er að gerast í heiminum. En á þessum vettvangi hafa þau tekið meðvitaða ákvörðun um að vinna saman og það hefur verið farsælt frá upphafi,“ segir Soffía.

Fluttist aftur í kjallarann hjá foreldrum sínum fyrir starfið

Soffía fluttist til Bandaríkjanna eftir að hafa klárað bachelor gráðu í efnafræði við Háskóla Íslands og bætti við sig mastersprófi í umhverfisverkfræði. Hún starfaði eftir útskrift á verkfræðistofu í Seattle, fluttist síðan til Englands og bætti við sig MBA við háskólann í Oxford. „Síðan sótti ég um þessa vinnu árið 1999 þegar hún var auglýst. Svo ég fékk vinnuna, flutti aftur til Íslands í heimabæinn í lok október 1999 og í kjallarann hjá foreldrum mínum. Ég hef unnið hjá PAME síðan,“ segir Soffía. Hún fluttist hins vegar til Reykjavíkur fyrir 10 árum og hefur verið að flakka á milli síðastliðinn áratug.

Kennir heimskautarétt 

Meðfram PAME starfar Soffía sem kennari á námsbraut heimskautarétts við Háskólann á Akureyri. „Ég einblíni mikið á siglingar og vistkerfanálgun þegar maður er að meta umhverfið,“ segir Soffía. Hún hefur kennt við Háskólann á Akureyri frá árinu síðan 2012.

Mikilvægir starfshópar fyrir Ísland

Þessir tveir starfshópar Norðurskautsráðsins, PAME og CAFF, sinna að sögn Soffíu mikilvægustu málefnum Íslendinga. „Það er hafið og náttúruvernd á norðurslóðum, við erum náttúrulega eyja þannig að hafið hlýtur að vera okkur mjög mikilvægt. Þar eru miklar auðlindir og svo er það þessi líffræðilegi fjölbreytileiki og viðkvæm náttúra Íslands. Þessir tveir þættir skipta mjög miklu máli.“

Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.

Designed & hosted by Arctic Portal