„Það er nóg að rannsaka og verður sennilega aldrei búið.“
Steingrímur Jónsson haffræðingur starfar sem prófessor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Sem ungur maður stefndi hann á að verða eðlisfræðingur og flytja erlendis en í námi í Danmörku valdi hann haffræði vegna nálægðar fagsins við náttúruna og flutti eftir námið á æskuslóðirnar á Akureyri til að starfa sem haffræðingur.
Sveiflur í sjónum við Ísland
Helsta viðfangsefni Steingríms er sjórinn í kringum Ísland og það sem hefur áhrif á hann og það sem hann hefur áhrif á. „Sjórinn sem hingað kemur er annars vegar kaldur og lítið saltur Pólsjór úr Norður-Íshafinu og hins vegar heitur og saltur Atlantssjór úr suðri. Þetta eru mjög ólíkar sjógerðir og því geta þær valdið sveiflum, en það fer eftir styrk straumanna og eiginleikum sjógerðanna sem þeir flytja en þeir eru breytilegar í tíma.“ Steingrímur segir sveiflurnar gjarnan vera meiri við Ísland heldur en t.d. við Noreg þar sem er yfirleitt heitur og saltur Atlantssjór ríkjandi. Þegar streymi Pólsjávar er mikið getur það valdið köldu tímabili bæði í sjó og á landi og jafnvel hafís úti fyrir öllu Norðurlandi eins og Íslendingar upplifðu á árunum 1965-70. Straumarnir hafa því ekki bara áhrif á það sem er að gerast í sjónum heldur líka á loftslagið. Steingrímur segir að í dag sé mikið af frekar heitum og söltum sjó að koma með straumum að sunnan en hann er næringarríkari en sjórinn úr Norður-Íshafinu. Framleiðni á lífrænum efnum er meiri í þessum sjó sem streymir norður fyrir land í gegnum Grænlandssundið, með honum reka egg og seiði þannig að þegar straumurinn er sterkur norður fyrir land er oft meira af fiskungviði fyrir norðan vegna framboðs af fæðu. „Þetta hefur því mjög mikil áhrif á lífríkið kringum landið,“ segir Steingrímur.
Hita-seltu-hringrásin
„Það er oft talað um að sjórinn hér sé að hlýna en í raun er sjórinn við Ísland yfirleitt að kólna vegna þess að hann er að gefa frá sér varma upp í andrúmsloftið þar sem hann er heitari en andrúmsloftið. Við það missir sjórinn orku og kólnar.“ Steingrímur segir að þegar talað er um loftslagsbreytingar er oft talað um hita-seltu-hringrásina: Heiti sjórinn úr suðri kólnar og verður ferskari á leið sinni norður vegna þess að það er meiri úrkoma en uppgufun, en vegna þess hvað hann kólnar mikið þá þyngist hann og endar með að sökkva. Hluti af Atlantssjónum breytist þannig í djúpsjó sem síðan streymir aftur út yfir hrygginn á milli Grænlands og Skotlands. Steingrímur segir að í þessu þarf að vera jafnvægi, það er segja að jafn mikið af sjó þarf að streyma inn og út og hefur það verið staðfest með mælingum. En það er talið að þetta flæði muni hægja á sér vegna þess að ferska vatnið sem kemur úr Norður-Íshafinu og bráðnun jökla muni hafa þau áhrif að vatnið verði ekki eins salt og eigi því erfiðara með að sökkva, sem myndi valda minni myndun af djúpsjó og hafa áhrif á alla hringrásina. Í þessum aðstæðum myndi sennilega kólna á Íslandi þar sem það myndi hægja á innstreymi Atlantssjávar yfir Grænlands-Skotlands hrygginn. En Steingrímur segir mælingarnar ekki sýna merki um þessa þróun enn þá „við erum búin að mæla þetta í 20 ár og erum ekki að sjá að þetta sé að gerast. Þvert á móti hefur flæðið aukist en þetta undirstrikar í raun að við vitum ekki nóg. Grænlandsjökull er að bráðna og ferskvatn hefur bæst við á þessu svæði. Því er haldið áfram að mæla vegna þess að það er mikilvægt að fylgjast með þessu. Það er nóg að rannsaka og verður sennilega aldrei búið.“
„Það er nauðsynlegt fyrir þá sem starfa í haffræði á Íslandi að skilja hvað er að gerast í Norður-Íshafinu og í hafinu fyrir sunnan land því þetta eru þau svæði sem hafa langmest áhrif á hafið við Ísland.“
Mikilvægt að viðhalda mælingunum fyrir rannsóknir
Megin starfsemi Hafrannsóknastofnunar byggir á vöktunarverkefnum af ýmsum toga. Meðal annars á umhverfisþáttum í hafinu í kringum Ísland. Farið er ársfjórðungslega í rannsóknarleiðangra þar sem hitastig og selta er mæld á föstum sniðum út frá landinu og hafa mælingarnar staðið í 50 ár. Steingrímur segir „mikið er til af gögnum og Íslendingar hafa staðið sig vel í gagnaöflun fram að þessu. Það er lykilatriði þegar þú ert að rannsaka loftslagsbreytingar að hafa langtímavöktun til að fylgjast með hvað er að gerast til að geta sagt hvort hægt sé að meta langtímabreytingar.“
Aðhefst ýmislegt
Steingrímur starfar ekki einungis sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun heldur er hann einnig prófessor við Háskólann á Akureyri, þar kennir hann haf- og veðurfræði ásamt öðrum fögum og hefur gert í yfir 30 ár. Hann hefur einnig kennt við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Steingrímur hefur líka setið í Loftslagsráði sem leiðbeinir stjórnvöldum með aðgerðir í loftslagsmálum. Hann segir það ansi stórt og viðamikið svið þar sem sérfræðingar, hagsmunaaðilar og fulltrúar háskólanna funda hálfs mánaðarlega.
Náttúran kallaði
Steingrímur ætlaði upphaflega að verða eðlisfræðingur og fékk hann eftir stúdentspróf eins árs styrk til að fara til Bandaríkjanna „ég gat ekki beðið eftir að komast til útlanda,“ segir hann og hlær. Hann lauk síðan BS gráðu í stærðfræði og eðlisfræði og í kjölfar þess meistaraprófi í haffræði frá Kaupmannahafnarháskóla „en mig langaði að vera meira úti og í tengslum við náttúruna sem varð til þess að ég fór í haffræði, það var þó tilviljun eins og stundum er. Eftir það fékk ég styrk frá Norðurlandaráði til að fara í doktorsnám til Bergen og lauk doktorsprófi í haffræði þar en doktorsritgerðin fjallaði um hafstrauma í höfunum norðan Íslands og í Framsundi milli Svalbarða og Grænlands.“ En hann segir Bergen vera hálfgert „Mekka“ haffræðinnar á norðurlöndunum. Þessi reynsla reyndist honum góður bakgrunnur fyrir það sem tók við þegar hann kom heim til Íslands og fór að vinna fyrir Hafrannsóknastofnun og Háskólann á Akureyri. „Síðan hef ég gaman af því að ferðast og kynnast nýjum aðstæðum og það kom í ljós að haffræðin er kjörið tækifæri til þess þar sem að hafið hefur engin landamæri,“ segir Steingrímur.
Ferðast nú fyrir fjölskylduna
Á sama tíma og Steingrímur stundar mælingar á hafstraumum í kringum Ísland hafa börnin hans flutt til bæði Bandaríkjanna og Danmerkur og því ferðast Steingrímur og eiginkona hans, Árún Kristín Sigurðardóttir, þangað til að hitta börnin sín og barnabörn. Steingrímur fær því tækifæri til að svala ferðaþorstanum reglulega í heimsóknum til þeirra.
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
Samfélögin skipta mestu máli
Háskólinn á Akureyri (HA) hefur verið leiðandi í norðurslóðafræðum síðustu áratugi og stefnir skólinn á að þróast enn frekar á því sviði. Eyjólfur Guðmundsson, rektor háskólans segir samfélagslega nálgun eiga að hljóta meiri athygli þegar kemur að umfjöllun um norðurslóðir.
Félagsvísindi ættu að vera í forgang
Eyjólfur segir umræðu um norðurslóðir hafa einblínt á náttúruvísindi en hann telur að áherslan ætti að vera á samfélögin, „Í blöðum hafa norðurslóðir alltaf snúist um bráðnun jökla og sífrera en á þessu svæði búa um fjórar milljónir íbúa sem eru að kljást við samfélagsleg verkefni sem þarf að huga að.“ Meðal stærstu vandamálanna sem íbúar á þessum slóðum kljást við er skortur og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun og fjarskiptaleiðum sem önnur ríki telja sjálfsögð.
Háskólinn á Akureyri skrifaði nýverið undir samstarfssamning við Háskóla Grænlands (Ilisimatusarfik) um samstarf og miðlun þekkingar og reynslu HA af fjarnámstækni. Eyjólfur segir markmiðið vera að norðlægari skólar geti deilt með sér námsefni og þekkingu og að Háskólinn á Akureyri geti verið leiðandi í því hlutverki. Norðurslóðamál hafa verið undirtónn í öllu starfi háskólans síðustu áratugi og segir hann mikla áherslu vera á nám í hug- og félagsvísindum. Þar á meðal heimskautarétti sem er þverfagleg námsleið í stjórnarháttum, nýtingu náttúruauðlinda og réttindum frumbyggja. „Það er þessi samfélagslega nálgun sem er svo mikilvæg og fólk gleymir að horfa til þegar það hugsar um norðurslóðir,“ segir Eyjólfur. Hann sér fyrir sér að það muni bætast við önnur námsleið tengt norðurslóðum í náinni framtíð.
Horfum til norðurs
Í 19. Lið í stefnu Íslands í málefnum norðurslóða er fjallað um eflingu Akureyrar sem norðurslóðamiðstöð Íslands. Á Akureyri er fjöldi stofnanna og fyrirtækja sem falla undir norðurslóðastarf og teljast hluti af þessum klasa. Eyjólfur segir lykilatriði fyrir Háskólann á Akureyri að vinna í nánu samstarfi við stofnanir á háskólasvæðinu þar á meðal Norðurslóðanet, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, starfshópa Norðurskautsráðsins PAME og CAFF og Jafnréttisstofu. „Jafnréttisstofa er meðal þessara stofnanna vegna þess að jafnréttismál eru gríðarlega mikilvægur málaflokkur á norðurslóðum þar sem mörg samfélög á þessu svæði hafa ekki náð sama árangri og Ísland,“ segir Eyjólfur.
Þegar Eyjólfur tók við starfi rektors árið 2014 áttaði hann sig á því hversu mikilvægt er að í íslenskri stjórnsýslu sé skýr stefna í norðurslóðamálum. „Ég kveikti á þeirri peru að við búum við sömu verkefni og togstreitu eins og á öðrum stöðum á norðurslóðum til dæmis Noregi og Kanada, togstreitan milli norðurs og suðurs á Íslandi er sú sama. Það er annað veðurfar á norðurhlutanum en suðurhlutanum og við á norðurlandi samsömum okkur raunverulega betur með þeim eiginlegu norðlægu slóðum. Oft er einblínt á að horfa til suðurs en ég vil horfa til norðurs. Ég lít svo á að það sé formlega búið að gera Akureyri að miðstöð norðurslóða í stefnu stjórnvalda og byggja upp þá starfsemi sem hér er en ég tel að það væri ekki til skaða fyrir okkur að gera miðstöðina sýnilegri í umræðunni,“ segir Eyjólfur.
Rannsóknir skólans byggja á norðurslóðum
Rannsóknir HA byggja að miklu leyti á því sem er að gerast á norðurslóðum. Þar á meðal er verið að skoða hafstrauma í norður íshafi, heilbrigði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, byggðastefnu og aðgengi að menntun. „Tenging okkar við norðurslóðirnar snýst ekki bara um námsgráðurnar sem við veitum heldur þá staðreynd að öll okkar starfsemi er meira og minna hluti af því samfélagi sem við erum að reyna að skapa hér á norðurslóð. Einnig hvernig við getum verið fyrirmynd og aðstoðað önnur samfélög á norðurslóðum til að skapa sitt aðgengi,“ segir Eyjólfur. Hann segir stærstu áskorun samfélaga sem búa við frumstæðar aðstæður á norðurslóð ekki vera aðgengi að tækni heldur vilja stjórnvalda til að leggja fjármuni í að byggja upp tæknina. „Íslendingar hafa kannski ekki áttað sig á að það er ekki sjálfgefið að hér sé gott líf. Ef við skoðum staðsetningu okkar á hnettinum og förum austur til vesturs og skoðum allar byggðir sem eru á sömu breiddargráðu þá komumst við að því að þar eru hvorki stórar byggðir né miklar borgir nema í norðurhluta Noregs og kannski í norðurhluta Svíþjóðar og Finnlands."
Líður vel í snjó
Eyjólfur menntaði sig í hagfræði við Háskóla Íslands og fór í framhaldsnám til Bandaríkjanna í umhverfis og auðlindahagfræði. Hann segir uppruna sinn sem Íslending hafa leitt hann í nám í nýtingu auðlinda sérstaklega þar sem á námstíma hans var sjávarútvegur Íslendinga okkar helsta tekjulind. Eyjólfur fluttist norður um aldamótin til að starfa við Háskólann á Akureyri. Ákvörðunina byggði hann á því hvar hann gæti starfað á sínu fagsviði í stofnun sem væri enn í mótun og varð Háskólinn á Akureyri fyrir valinu, einnig segist hann aldrei hafa kunnað vel við veðrið á suðurlandi og alltaf liðið vel í snjó. En eftir drjúga stund í starfi við HA bauðst Eyjólf starf hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP. „Atvik urðu þannig að ég kynntist CCP sem auglýstu eftir hagfræðing og ég vissi að ef ég myndi ekki prófa myndi ég sjá eftir því,“ segir hann. Má ætla að það hafi verið rétt ákvörðun því Eyjólfur starfaði hjá CCP í sjö ár áður en hann snéri aftur til Akureyrar og tók við sem rektor Háskólans á Akureyri árið 2014. „Ég er einn af fáum aðilum sem er alinn upp á suðvesturhorninu og hef flutt til Akureyrar tvisvar.“ segir hann. Eyjólfur segir Akureyri heilla sig mjög sem staður til að búa á með nálægð við náttúru og auðveldar samgöngur. „Eina sem ég saknaði var beintenging við erlendar borgir sem er kominn núna með komu nýs flugfélags. Með tengingu við alþjóðlega flugvelli þá er Akureyri orðin álitlegasti búsetukosturinn fyrir mig,“ segir Eyjólfur.
Framtíðarsýn rektors
Eyjólfur segir HA vera að móta nýja stefnu fyrir háskólann en gefur ekki í skyn hversu lengi hann stefnir á halda áfram sem rektor. „Þó ég sé vissulega farinn að spá í framtíðina þá hefur covid og heimsástandið kennt mér að það borgar sig ekkert að gera of stór plön og núna er minn helsti fókus að leiða Háskólann á Akureyri inn í næsta stefnumótunarferli. Við erum að koma út úr núverandi stefnumótun og gæðaúttektum á mjög föstum og góðum grunni. Sjáum að það hefur gengið vel, stofnunin stækkað og við geta bætt við okkur mannauð. Við höfum vaxið gríðarlega í nemendafjölda en á sama tíma náð að halda uppi rannsóknum hjá okkur. Nýjasta könnunin sem kom frá stofnun ársins sýnir okkur að ánægja og starfsandi er að batna og er í samanburði við aðrar sambærilegar stofnanir á góðum stað. Nú erum við með þennan grunn og þurfum að hugsa hvar ætlum við að vera árið 2030. Núverandi stefna er í gildi til 2023 sem er í raun ekki á morgun heldur hinn,“ segir Eyjólfur og hlær.
Meðfylgjandi ljósmynd er tekin af Auðun Níelssyni ljósmyndara.
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
Móta framtíðaráherslur norðurslóðarannsókna
Gerlis Fugmann fluttist til Íslands fyrir tveimur árum til að starfa sem framkvæmdastjóri Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) á Akureyri. Hún kann vel við sig í íslenskri veðráttu og hefur margra ára reynslu í norðurslóðamálum, meðal annars sem framkvæmdastjóri APECS, samtaka ungra vísindamanna á norðurslóðum.
Alþjóðlega norðurskautsvísindanefndin (IASC)
IASC er alþjóðleg nefnd sem stuðlar að rannsóknum á norðurslóðum og samstarfi milli stofnana og samtaka og eru meðlimir samtakanna 24 talsins. „Skrifstofan er í raun í bakgrunni en við sjáum um samskipti, fjármál og erum ákveðinn miðpunktur í skipulagningu og stuðningi við meðlimi og þeirra störf,“ segir Gerlis. Aðild að nefndinni eiga alþjóðlegar vísinda- og rannsóknarstofnanir frá norðurskautsríkjunum átta ásamt stofnunum frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Kína, Portúgal, Póllandi, Suður-Kóreu, Spáni, Sviss, Tékklandi og Þýskalandi.
Rannís hýsir skrifstofu IASC sem er í háskólabyggingunni Borgum á Akureyri en höfuðstöðvar IASC hafa verið á Íslandi síðan árið 2017. Með því að reka höfuðstöðvar IASC á Íslandi veitir það íslensku vísindasamfélagi betri aðgang að því öfluga tengslaneti sem IASC býr að og styrkir að auki norðurslóðastarfsemina á Akureyri.
Byggja á langtímaskipulagningu og markmiðasetningu
Starfsemi nefndarinnar byggir á fimm vinnuhópum sem starfa allir út frá ákveðnum þemum: Landræn kerfi (terrestrial), freðhvolf (Cryosphere), hafvísindi (Marine), mann- og félagsvísindi (Human & Social) og gufuhvolf (Atmosphere). „Starfsemin fer að mestu fram innan starfshópanna sem eru kjarni samtakanna og vinnu hvers árs. IASC eru þverfagleg samtök og eru verkefnin eftir því. Hver hópur hefur sín verkefni og veitir styrki á hverju ári til að stuðla að samstarfi milli ólíkra vísindamanna og hópa,“ segir Gerlis. IASC heldur einnig ráðstefnu ár hvert sem kallast Vísindavika Norðurslóða (Arctic Science Summit Week). Ráðstefnan var seinast haldin í gamla heimabæ Gerlis, Tromsö í Noregi á þessu ári og mun sú næsta vera í Vínarborg í Austurríki í febrúar árið 2023.
Frá árinu 1995 hefur IASC stuðlað að því að samtök og samfélag norðurslóðavísinda komi saman á alþjóðlegri ráðstefnu um heimskautarannsóknir sem kallast ICARP (International Conference on Arctic Research Planning), sjá hér: https://icarp.iasc.info/. „Þetta kallast ráðstefna en er það í raun ekki. Þetta er ferli þar sem vísindasamfélag norðurslóða kemur saman til að ræða málefni norðurslóða með það að markmiði að rannsóknasamfélagið snerti á þessum vanda á næsta áratug.“ Ráðstefnan er haldin á tíu ára fresti. Sú fyrsta var árið 1995 og síðast var hún haldin árið 2015. „Við byggjum starfsemi IASC á þeim niðurstöðum sem koma frá ráðstefnunni. Við erum byrjuð að undirbúa fjórðu ICARP ráðstefnuna fyrir árið 2025 sem mun verða í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum. Þetta krefst langtíma skipulagningar sem tekur nokkur ár vegna þess að við vinnum með mismunandi skoðanir og vitneskju, þar á meðal vitneskju frumbyggja sem er augljóslega mikilvægur þáttur. Þetta er ótrúlega spennandi ferli því spurningarnar sem vakna út frá þessu móta viðfangsefni norðurslóðarannsókna í framtíðinni,“ segir Gerlis.
Áhugi fyrir norðurslóðum kviknaði í Kanada
Gerlis er fædd og uppalin í Þýskalandi og kláraði þar öll stig háskólanáms í landafræði. Þegar hún tók skiptinám í Kanada fæddist áhugi hennar á norðurslóðamálum. „Þegar ég var í námi í Þýskalandi tók ég tveggja ára skiptinám við Northern British Columbia háskólann í Kanada. Þar kynntist ég hinu kanadíska norðri sem varð til þess að ég valdi að rannsaka efnahagslega þróun í Nunavut í Norður-Kanada í mastersrannsókninni minni“. Nunavut er eitt af strjálbýlustu landsvæðum heims og er meirihluti íbúa svæðisins Inúítar. Í framhaldi af mastersrannsókninni byggði Gerlis einnig doktorsrannsókn sína á sambærilegum rannsóknum á Nunavik og Nunatsiavut. Á meðan Gerlis vann að doktorsgráðu sinni starfaði hún einnig sem sjálfboðaliði hjá APECS (Association of the early polar career scientists) í Noregi, en það eru samtök sem styðja við unga vísindamenn í rannsóknum á norðurslóðum. Gerlis sat í framkvæmdanefnd samtakanna, var forseti í eitt ár og jók það enn frekar áhuga hennar á heimskautinu. Síðan gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra APECS á árunum 2013-2020.
Þegar kominn var tími á að hætta hjá APECS sótti Gerlis um framkvæmdastjórastöðu hjá IASC. „Ég ákvað að það væri tími kominn til að leita á önnur mið. IASC eru samstarfssamtök APECS þannig ég hafði unnið með þeim í fjölbreyttum verkefnum. Þegar staðan var auglýst, sótti ég um og mér til mikillar ánægju fékk hana,“ segir Gerlis.
„Heppin að vera hérna“
Aðspurð hvernig henni finnist að búa á Íslandi segist hún elska það. „Ég bjó í norðri áður, í Tromsö og hef saknað þess. Þegar ég sneri aftur til Þýskalands þurfti ég að aðlagast borgarlífi og snjóleysi,“ segir hún og hlær. Gerlis ólst upp í litlum bæ í Þýskalandi og því hentar henni að vel að búa á Akureyri. „Hlutirnir eru ekki eins erilsamir og í stórborgum. Akureyri er líka fallegur bær og mér finnst ég heppin að vera hérna.“
Vefsíða IASC: Home - International Arctic Science Committee (iasc.info)
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
Í málsvari fyrir norðurslóðaklasa Akureyrar
Norðurslóðanet Íslands var stofnað árið 2013 og er ein af stofnunum norðurslóðaklasans í Borgum við Norðurslóð á Akureyri. Embla Eir Oddsdóttir hefur verið forstöðumaður Norðurslóðanets frá stofnun þess. Hún ásamt Tom Barry, forstjóra CAFF, mótuðu upphaflegu hugmyndina um starfsemina sem utanríkisráðuneytið styrkti til stofnunar og áframhaldandi starfsemi. Norðurslóðanet hefur frá stofnun þess unnið að fjölbreyttum verkefnum, þar á meðal að leiða verkefni um kynjajafnrétti á Norðurslóðum.
Hvernig byrjar Norðurslóðanet?
„Undirbúningurinn hófst á árunum 2011-2012 en formleg starfsemi hófst í janúar 2013 og því erum við að vera 10 ára gömul. Ég og Tom Barry, framkvæmdastjóri CAFF, fórum að velta fyrir okkur hvernig við getum fengið norðurslóðastofnanirnar til að vinna betur saman og auka sýnileika þeirra. Við ætluðum að gera þetta í sjálfboðavinnu en utanríkisráðuneytið frétti af þessu og spurði hvað við myndum gera ef við fengjum styrk,“ segir Embla. Í kjölfarið settust Embla og Tom niður og skrifuðu verkefnalýsingu í samvinnu við kollega sína hjá öðrum stofnunum sem vinna að þessum málaflokki, og sendu umsókn til utanríkisráðuneytisins. Á sama tíma var álíka umsókn í gangi hjá Eyþingi, samtökum sveitarfélaga og því var ákveðið að steypa hugmyndunum saman og stofna sjálfseignarstofnun sem tók um eitt ár í undirbúningi. Gerður var samningur við utanríkisráðuneytið og fyrstu þrjú árin voru í raun tilraunaverkefni styrkt af Sóknaráætlun 2020 en í kjölfarið bauð utanríkisráðuneytið tveggja ára samning sem síðan hefur verið framlengdur tvisvar sinnum. Þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu var gerður samningur fjögurra ára. „Þeir héldu okkur mjög við efnið í verkefnum á meðan á formennskunni stóð og nýjasti samningurinn, frá september 2021, kveður á um fimm ár og möguleika á að fjárframlag til okkar verði tvöfaldað á samningstímanum,“ segir Embla.
Hlutverkið að stuðla að og styrkja samstarf
„Norðurslóðanet er samstarfsvettvangur þeirra aðila sem eru að vinna að norðurslóðamálum hér á Akureyri en líka á Íslandi almennt. Við höfum þurft að þróa okkar hlutverk og verkefnin hafa kannski ekki alltaf endurspeglað hlutverkið því við höfum þurft að finna okkur fjármagn í gegnum alls kyns verkefni,“ segir Embla Eir. En samkvæmt nýjasta samningnum við utanríkisráðuneytið mun Norðurslóðanet styrkjast í hlutverki sínu sem andlit norðurslóðaklasans og þar af leiðandi leggja vinnu í að styrkja hann enn frekar.
Verkefni netsins eru fjölbreytt; allt frá því að skipuleggja fundi og viðburði yfir í að halda málstofur. Mikið samstarf var við utanríkisráðuneytið í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021, og er reyndar enn þrátt fyrir að formennskunni sé lokið . Þann 31. mars síðastliðinn héldu Norðurslóðanet og ráðuneytið samráðsfund í Háskólanum á Akureyri þar sem hafin var vinna við mótun framkvæmdaráætlunar fyrir nýja stefnu Íslands í norðurslóðamálum sem samþykkt var í maí 2021. Ásamt því er netið um þessar mundir í þremur verkefnum sem snúa að sjálfbærri þróun hjá Norðurskautsráðinu og er jafnréttisverkefnið eitt þeirra en þriðja fasa þess verkefnis lauk með útgáfu heilmikillar skýrslu um jafnrétti á Norðurslóðum (Gender Equality in the Arctic). „Það er stórt alþjóðlegt verkefni og við erum byrjuð á fjórða fasa þess. Innan verkefnisins skipuleggjum við vinnustofur sem snúa að ýmsum hliðum kynjajafnréttis. Einnig erum við í hugmyndavinnu með frumbyggjum sem miðar að því að vera með þematíska viðburði á netinu og jafnvel viðtöl um málefni sem frumbyggjar telja mikilvæg og þarft að vekja athygli á.“ Verkefni sem unnin eru í samstarfi við Norðurskautsráðið eru í bið eins og er vegna stríðsins í Úkraínu.
Meðal samstarfsfélaga Norðurslóðanets eru Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) en þau hafa styrkt kynningarverkefnið „Fólk í norðurslóðamálum“ síðast liðið ár. Fyrir verkefnið hefur Norðurslóðanet staðið að upplýsingaöflun um fyrirtæki, stofnanir og framleiðslu sem tengjast norðurslóðamálum á Norðurlandi eystra og tekið viðtöl við einstaklinga sem við viljum kynna fyrir Íslendingum. „Við teljum mikilvægt að vekja athygli á því öfluga starfi sem einstaklingar og stofnanir eru að vinna að á öllu landinu sem við kemur norðurslóðamálum.“ Segir Embla.
Námið í Háskólanum á Akureyri
Áhugi Emblu á norðurslóðafræði kviknaði í Háskólanum á Akureyri í samfélags- og hagþróunarfræði þar sem Jón Haukur Ingimundarson mannfræðingur og fleiri kenndu. Í náminu var lögð áhersla á norðurslóðafræði og meðan á því stóð fór nemendahópurinn til Grænlands í viku og síðan til Síberíu þar sem þau dvöldu í mánuð. „Sem var algjörlega geggjað og ógleymanleg reynsla og raun aðal ástæðan fyrir því að ég hef haldist við þetta,“ segir Embla. „Að upplifa og sjá þann veruleika sem mörg þessi samfélög, þ.á.m. frumbyggjar, lifa við af ótrúlegri seiglu mun alltaf vera með mér og hefur haft mikil áhrif á hvernig ég hugsa um Norðurslóðir. Margir sjá þetta svæði eins og þar sé bara ís, birnir, olía og aðrar auðlindir en gleyma fólkinu og þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir.“
Eftir grunnnámið í HA tók Embla viðbótarár í University of Northern British Columbia háskólanum í Kanada í borg sem heitir Prince George. Embla lýsir þessum tíma sem „viðbótar lúxusári“ þar sem hún gat einblínt á það sem hún hafði mestan áhuga á eins og frumbyggjafræði og mannfræði. Hún segir þennan tíma hafa verið ótrúlegan og að Prince George hafi verið áhugaverður staður en þó ekki beint sjarmerandi. „Þetta var svona týpískur Boom-bust bær og maður fann það alveg. Blanda af hefðbundnum starfsgreinum eins og skógarhöggi, olíuhreinsun og sögunarmyllum og hins vegar listamannalíf og háskólinn. Það er líka hátt hlutfall frumbyggja í bænum sem var mjög lærdómsríkt að kynnast og maður upplifði mjög mun í lífsgæðum á milli frumbyggja og annarra.“
Mastersritgerð á 10 dögum!
Eftir árið lærdómsríka kom Embla aftur til Akureyrar og vann hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. „Ég hef verið viðloðandi hana í ansi mörg ár. Svo fór ég til Englands í mastersnám í London School of Economics og tók þar þverfaglegt nám í lög-, mann- og samfélagsfræði.“ Þegar hún kláraði staðnámið snéri hún til baka til Akureyrar og skrifaði mastersritgerð á 10 dögum. „Það var ekki sniðug nálgun,“ segir hún og hlær. Þrátt fyrir útskriftina úr mastersnáminu fór Embla beint í heimskautarétt í Háskólanum á Akureyri. „Ég var í fyrsta árganginum sem fór í gegnum samfélags- og hagþróunarfræðina og einnig í fyrsta árganginum í heimskautarétt. Það var líka þverfaglegt nám með stjórnmálafræði og hagfræði, þjóðarétti og félagsvísindum.“ Embla hefur lengi spáð í að fara í doktorsnám en hugsar sér að geyma það þangað til hún er kominn á eftirlaun, „ mér til dundurs og ánægju.“
Nýi samningurinn eykur öryggi stofnunarinnar
„Með nýjum samningi okkar við utanríkisráðuneytið erum við komin á dálítið nýjan stað. Við finnum fyrir miklum stuðningi bæði frá ráðuneytinu og okkar nærsamfélagi. Ég held að ég muni þess vegna halda eitthvað áfram við að reyna að koma Norðurslóðaneti á þann stað að við séum með tryggt fjármagn til rekstrar. Þetta hefur lengi verið ótryggt ástand, sérstaklega fyrir starfsfólk sem er í hlutastarfi í stuttan tíma. Ég myndi gjarnan vilja sjá að þessi stofnun hafi tryggari stöðu og sé hérna með kjarna af starfsfólki í fullu starfi. Svo kemur einhvern tímann að því að það verður gott að gamlir hundar komi sér út og að nýtt blóð komi inn sem getur tekið stofnunina á næsta stig. En ég er ekki farin enn þá,“ segir Embla og hlær.
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
Hóf ferilinn í norðurslóðamálum í Kína
Egill Þór Níelsson starfar hjá Rannís sem sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði og leiðir verkefni tengd Uppbyggingarsjóði EES og norðurslóðasamstarfi. Hann er frá Akureyri en bjó í Evrópu á meðan hann menntaði sig og fluttist síðan til Kína til að starfa í norðurslóðamálum. Hann segir samstarf Kína og Íslands tengt málefnum norðurslóða hafi verið í umræðunni þegar hann fluttist til Shanghai og fannst því kjörið að nýta tækifærið verandi uppalinn á norðurslóðum.
Áhuginn kviknaði í Kína
Egill fluttist til Kína árið 2011 þegar hann var að klára seinni mastersgráðuna sína: „Ég þurfti að finna mér eitthvað að gera sem gæti þótt bæði gagnlegt og áhugavert og fór að kynna mér samskipti Íslands og Kína. Þá sá ég að málefni norðurslóða voru kominn í forgrunn í tvíhliða samstarfi. Síðan kom í ljós að fyrsta sendinefnd Kína um norðurslóðarannsóknir var að fara til Íslands í ágúst 2011 þar sem átti að ræða um mögulegt samstarf, m.a. í formi Kínversk-íslenskrar/norrænnar norðurslóðamiðstöð (sem síðar var stofnað sem CNARC) um samstarf á sviðið félagsvísinda og sameiginlega kínversk-íslenska norðurslóðarannsóknastöð (síðar CIAO) fyrir norðurljósarannsóknir og fleira. Ég bjó þá til tillögu að verkefni sem hafði að gera með efnahags- og samfélagsþróun á norðurslóðum og reyndist passa inn í stærra verkefni sem Heimskautastofnun Kína (PRIC) var að vinna fyrir. Ég var ráðinn til sex mánaða sem gistifræðimaður við PRIC sem síðan vatt upp á sig. Þar var ég gistifræðimaður í átta ár, og þar af fimm ár sem framkvæmdastjóri Kínversk-norrænu Norðurslóðamiðstöðvarinnar,“ segir Egill.
Málefni norðurslóða hafa mikla þýðingu fyrir Ísland
Egill segist alltaf hafa vitað af þessum málaflokki, sérstaklega sem uppalinn Akureyringur. „Áhuginn kom af því þegar ég fór að kynna mér hversu fjölbreytt og áhugaverð málefni norðurslóða eru og hvað þau hafa mikla þýðingu fyrir Ísland í alþjóðlegu samstarfi. Einnig er þetta vettvangur þar sem við höfum margt fram að færa og aðilar vilja eiga samstarf við okkur. Það skiptir auðvitað miklu máli að vera á svæðinu og hafa sérþekkingu á málefninu. Þetta reyndist ásamt jarðvarma og sjávarútvegi það svið sem þótti áhugaverðast fyrir mögulega samstarfsaðila í Kína að horfa frekar til en að fara inn í einhverja grein sem Ísland er ekki beint leiðandi í.“
Sigldi með Snædrekanum
Árið 2012 fór kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn í rannsóknarleiðangur á norðausturleiðina um Norður-Íshafið meðfram Rússlandi og Noregi og kom í höfn á Íslandi. Egill annar tveggja Íslendinga um borð en í áhöfninni á leiðinni til baka frá Íslandi til Kína í gegnum miðleiðina þvert yfir Norður-Íshafið var Ingibjörg Jónsdóttir, haffræðingur um borð. Egill segir ferðina hafa verið mikla upplifun og er hún greinilega einn af hápunktum starfsins á meðan hann dvaldi í Kína. Þetta var í fyrsta skipti sem að Kínverjar fóru í rannsóknarleiðangur á norðausturleið og voru meðal annars skoðuð áhrif loftslagsbreytinga á hafís. Ferðin til Íslands tók sjö vikur en um borð voru 120 manns, vísindamenn og aðrir áhafnarmeðlimir. Snædrekinn endaði ferðina á Íslandi í boði íslenskra stjórnvalda og lagðist við bryggju í Reykjavík og Akureyri þar sem almenningi var boðið að fara um borð og skoða. Þessi ferð endurspeglar samvinnu landanna í málefnum norðurslóða og á meðan siglingunni stóð vann Egill ásamt öðrum m.a. í viljayfirlýsingum gagnvart bæði stofnun Kínversk-norrænu Norðurslóðamiðstöðvarinnar og einnig fyrir rannsóknarstöðina á Kárhóli í Reykjadal. „Svo voru málþing og fundir í kringum þessa heimsókn sem ég tók þátt í skipulagningu á gagnvart ásamt Rannís og undir leiðsögn forvera míns í starfi, Þorsteins Gunnarssonar, sem var lykilmaður í því m.a. ásamt norðurslóðadeild utanríkisráðuneytis og forsetaskrifstofu. En siglingin, að sjá þetta landsvæði og upplifa að vera um borð með hartnær 120 kínverskum vísindamönnum og áhafnarmeðlimum og einum frönskum meistaranema, var mikil lífreynsla,“ segir Egill og hlær.
Leggur stund á doktorsnám í alþjóðasamskiptum og sagnfræði
Egill er með meistaragráður í bæði mannfræði og alþjóðaviðskiptum. Um þessar mundir er hann í doktorsnámi í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Lapplandi og sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið snýst um samskipti Kína og Norðurlandanna um málefni norðurslóða á 21. öldinni þegar mesta virknin hefur verið. „Ég hef verið að vinna doktorsverkefnið m.a. út frá fyrri reynslu og setja það í fræðilegt samhengi. Þetta er greinasafn sem ég er að vinna að og er búinn að fá þrjár af fjórum greinum birtar.“
Leiðandi í verkefnum Rannís tengd norðurslóðamálum
Eftir átta ára dvöl við Heimskautastofnun Kína flutti Egill aftur til Íslands. „Ég ákvað að koma til baka til að vera nær vinum og fjölskyldu. Ég hafði líka verið í burtu í um það bil tíu ár og búið í Shanghai, París og London og saknaði þess að vissu leyti að vera á Íslandi,“ segir Egill. Honum bauðst starf hjá Rannís árið 2019 og gegnir þar stöðu sérfræðings á rannsókna- og nýsköpunarsviði. Egill segir starf sitt hjá Rannís vera víðfeðmt. Hann er að hluta í verkefnum tengdum norðurslóðum. Þar af er stuðningur við Rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins (Horizon Europe) sem hefur reynst stærsta einstaka fjármögnunarleið gagnvart styrkjum tengdum norðurslóðarannsóknum á Íslandi undanfarinn áratug. Egill er einnig fulltrúi Íslands í Norðurskautsvísindanefndinni (IASC) en Rannís hýsir skrifstofu hennar í Borgum á Akureyri. Ásamt því er hann í aðalstjórn í Heimskautaráði Evrópu (European Polar Board), fulltrúi í stjórn Norðurslóðanets og þátttakandi í samvinnunefnd um málefni norðurslóða. „ Þetta eru ansi margir vettvangar að koma saman og ekki allt upptalið,“ segir Egill.
Meðfylgjandi ljósmynd er úr einkasafni.
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
Vitað um 800 tegundir af fléttum á Íslandi
Starri Heiðmarsson, doktor í fléttufræði, starfar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Borgum á Akureyri. Hann hefur unnið hjá stofnuninni síðan um aldamótin við gróðurrannsóknir og hin ýmsu verkefni, meðal annars fyrir norðurslóðastofnanirnar á Akureyri. En hvernig tengist fléttufræði norðurslóðamálum?
Hvað eru fléttur?
Starri segir fléttufræði vera undirgrein grasafræði eða öllu heldur sveppafræði: „Fléttur eru að stórum hluta asksveppir með grænþörung í sambýli eða blábakteríur. Sveppir, sem ófrumbjarga lífverur, þurfa að lifa á einhverju og asksveppir lifa á því að láta einhvern, þ.e. grænþörung eða blábakteríu, framleiða fyrir sig með ljóstillífun. Við gætum jafnvel haldið því fram barrtré séu fléttur, þau eru að ljóstillífa fyrir furusveppina og lerkisveppina sem eru svepprótarsveppirnir sem sjá um að útvega vatn og steinefni fyrir trén og lifa svo á trjánum. Ef þú ferð að flækja þig í þessum málum, þ.e. tengslum sveppa og plantna, þá eru til sníkjuplöntur sem eru hættar að ljóstillífa sjálfar, þær nýta sér svepprótarsveppi sem tengja þær við hýsilinn. Svo sveppurinn er orðinn milliliður í að halda einhverju glæpon uppi,“ segir Starri og hlær.
Starri lærði líffræði í Háskóla Íslands og sérhæfði sig í fléttufræði við háskólann í Uppsala í Svíþjóð. Hann rannsakaði ákveðna ættkvísl af fléttum í doktorsverkefninu sínu. Sú ættkvísl af fléttum heita Korpur á íslensku og finnast víðs vegar um heiminn bæði á norðurslóðum og einnig í hitabeltinu. Starri segir að áhugi hans á grasafræði hafi kviknað þegar hann fékk sumarstarf hjá Herði Kristinssyni grasafræðingi á Akureyri en Starri tók við af honum hjá Náttúrufræðistofnun. „Í framhaldi af því þá lá áhugasvið mitt í þróunarsögu og að afhjúpa hvernig tegundir og ættir eru skyldar innbyrðis og vita hvað hefur gerst í gegnum tíðina. Flokkunarfræði vakti áhuga minn og þá var bara spurning hvaða hóp maður myndi velja. Að mörgu leyti fannst mér fléttur áhugaverðar og það vantaði fléttufræðing til að taka við af Herði.“
800 tegundir af fléttum til á Íslandi og sífellt að bætast við
Náttúrufræðistofnun ber að fylgjast með hvaða tegundir eru til í lífríki landsins. Í húsnæði stofnunarinnar á Akureyri er fléttusafn með yfir 20.000 eintökum, þar sem reynt er að hafa fulltrúa fyrir sem flestar tegundir. „Við erum með 800 tegundir af fléttum á Íslandi sem er tvisvar sinnum meira en æðplöntur. Fáir hafa stundað rannsóknir á þeim og um leið og við förum að leita og safna fléttum þá finnum við nánast alltaf einhverjar nýjar tegundir sem hafa ekki fundist hérna áður,“ segir Starri.
Á Íslandi hefur tvisvar verið haldið mót fyrir fléttufræðinga á Norðurlöndunum. Árið 1997 voru tuttugu manns með aðsetur á Eiðum og keyrðu víða um Austurland og söfnuðu fléttum, þá fundust um 50 nýjar tegundir. Árið 2009 var mótið á Snæfellsnesi og þá segir Starri að hafi fundist svipur fjöldi af nýjum tegundum.
Fulltrúi Íslands í þurrlendishóp CBMP
Starri segir tengsl hans við norðurslóðamál snúast um rannsóknir í sambandi við viðbrögð gróðurs og sérstaklega fléttna við loftslagsbreytingum en einnig samstarfi hans við starfshóp Norðurskautsráðsins, CAFF. Starri deilir formennsku í þurrlendishópi CBMP (Circumpolar biodiversity monitoring program) sem er eitt af aðalverkefnum CAFF. Verkefninu er skipt í fjóra hluta: þurrlendis-, sjávar-, fjöru- og ferskvatnshóp. Hlutverk þessara CBMP hópa hefur verið að samræma rannsóknir og vinnu milli þeirra óháð staðsetningu. Tilgangur verkefnisins er að byggja upp vöktunaráætlun sem er samræmd á milli allra landanna til að rannsakendur geti nýtt sér gögn annarra og gert samanburð. „Ef við ætlum að fylgjast með lífríkinu og líffræðilegri fjölbreytni þá eru engin landamæri sem virka og dugar ekki að vinna hvert í sínu landi. Við þurfum að horfa á þetta heildrænt og hvaða breytingar eru að verða á Norðurslóðum,“ segir Starri.
Áhrif loftslagsbreytinga á fjallstoppa og fléttur
Ásamt samstarfi við CAFF og önnur nefndarstörf tekur Starri einnig þátt í verkefnum sem koma að vöktun landsvæða vegna gróðurhúsaáhrifa. Eitt alþjóðlegu verkefnanna heitir Gloria (Global Observation Research Initiative in Alpine Environments). Gloria snýst um að fylgjast með breytingum á fjallstoppum vegna hlýnunar. Samkvæmt Starra henta fjallstoppar til vöktunar vegna þess að þeir eru næmir fyrir breytingum og sýna fljótt breytingar. Síðustu ár hefur stofnunin fylgst með reitum í Öxnadal en Starri hefur ásamt svissnesku teymi farið til rannsóknarstöðvarinnar Zackenberg á norðaustur Grænlandi þar sem er annað GLORIA svæði sambærilegt við Öxnadalinn.
Starri hefur einnig með höndum verkefni sem kollegi hans Eyþór Einarsson hóf árið 1965. Það snýst um vöktun jökulskerja í Breiðamerkurjökli, en þessi sker hafa stækkað mikið vegna þess að jökullinn er að þynnast. „Það er svo margt sem við erum að rannsaka í byggð, allt undir mannlegum áhrifum. Við erum með skepnuhald og beit og erfitt er að ráða fram úr hvort að breytingar séu vegna hlýnunar, beitar eða annarra breytinga á landnotkun. En í jökulskerjunum er ekkert mannlegt nema mengun eða loftslagsbreytingar, ekkert annað en náttúruleg rjúpnabeit,“ segir Starri.
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
Hverjar eru afleiðingar hlýnunar á fiskveiðar Íslands?
Hreiðar Þór Valtýsson er sjávar- og fiskifræðingur og einn af stjórnendum náms í sjávarútvegi við Háskólann á Akureyri. Hann hefur starfað sem bæði brautarstjóri og kennari við háskólann en er þessa dagana í rannsóknarleyfi. Eitt helsta rannsóknarefni hans er að skoða áhrif loftslagsbreytinga á fisk og fiskveiðar við Ísland.
Verðmætar fisktegundir færast til með hlýnun
Hreiðar segir að því hafi verið spáð að Ísland og önnur heimskautalönd muni græða á hlýnun jarðar, peningalega séð. „Verðmætar fisktegundir færast til með hlýnun. Grænland og heimskautahluti Rússlands fá væntanlega meiri þorsk þar sem vistkerfið breytist úr því að vera heimskautavistkerfi með sjávarspendýrum og litlum fiskum yfir í að vera kaldtemprað vistkerfi þar sem stórar og verðmætar fisktegundir eins og þorskur þrífast.“ Verðmætar tegundir færast norður.
Hreiðar segir að því hafi verið haldið fram að breytingarnar megi t.d. sjá í aukningu makríls sem kom til Íslands upp úr aldamótunum en fór að veiðast í miklu magni árið 2008. „Makríllinn kom eins og bjargvættur fyrir okkur í hruninu og veiðarnar jukust mikið,“ segir Hreiðar.
Gróði eða tap af hlýnuninni?
Hreiðar segist vera kominn með grófar niðurstöður í rannsókn sinni á því hvort við græðum eða töpum í fiskveiðum á hlýnun jarðar. „Auðvitað er hlýnunarskeið ekki búið, það er ennþá hlýtt og kemur líklega til með að hlýna meira. Margir hafa á tilfinningunni að við séum að græða vegna þess að við fengum makrílinn en við misstum líka aðrar tegundir í staðinn eins og rækju og loðnu. Þær tegundir eru kaldsjávartegundir sem hafa í rauninni hopað. Hlýsjávartegundir eru að sækja á en kaldsjávartegundir hopa í staðinn. Síðustu tíu til tuttugu ár hafa verið léleg í loðnuveiðum þannig að hér á landi er verðmæti minnkunarinnar er eiginlega jafn mikið og af aukningunni.“ segir Hreiðar.
Hvers vegna sjávarútvegsfræði?
Hreiðar lærði líffræði við Háskóla Ísland og fór síðan erlendis í fiskifræði. Aðspurður hvers vegna hann fór í nám í þessum greinum segir hann: „Þegar aðrir krakkar fóru í sveit fór ég til ömmu og afa á Seyðisfirði þar sem afi var útgerðarmaður og átti frystihús. Ég byrjaði því að vinna smá í fiski á sumrin um 12 ára aldur. Ég hafði alltaf gaman af því, frelsið var mikið og góðar tekjur. Þetta yrði aldrei leyft í dag, það er svo mikil gæðavitund í sjávarútvegi að þú hleypir ekkert krökkum þar inn. Þarna gat ég líka hlaupið um, skoðað skrítna fiska og gert hluti sem eru bannaðir í dag. Þetta vakti samt áhuga á efninu, þannig lá alltaf fyrir að ég ætlaði að verða í einhverju tengdu fiski,“ segir Hreiðar.
Eftir námið vann Hreiðar sem vísindamaður hjá Hafrannsóknarstofnun og varð síðar starfsmaður við Háskólann á Akureyri.
Sjávarútvegsfræðin vel sótt
Í Háskólanum á Akureyri er boðið upp á BS nám í sjávarútvegsfræði sem er þriggja ára nám og hefur verið vel sótt af bæði fjarnemum og staðnemum. Nemendum í sjávarútvegsfræði er einnig boðið að bæta við sig einu ári í viðskiptafræði og útskrifast með tvær námsgráður. Hreiðar segir aðsóknina hafa verið góða núna en hafi verið orðin mjög dræm í kringum árið 2007. „Þá misstu Íslendingar áhuga á sjávarútvegi og þetta var að hverfa en svo tókum við okkur til ég og Hörður sem er fyrrum nemandi, með hjálp góðra aðila, og reistum námið við,“ segir Hreiðar.
Háskólinn á Akureyri býður einnig upp á mastersnám í sjávarútvegsfræði sem Hreiðar kennir. Hreiðar segir mikilvægt fyrir skólann að bjóða upp á framhaldsnám í sjávarútvegsfræði en það eigi eftir að þróast betur.
„Líf mitt er eins og teygja“
Hreiðar Þór er fæddur á Akureyri, bjó í Reykjavík þegar faðir hans var þar í háskóla, hann en fluttist líka til Reykjavíkur vegna námsins í líffræði og síðan til Vancouver til að læra fiskifræði. „Líf mitt er svona eins og teygja, ég byrjaði hér, fór síðan langt í burtu og svo skaust ég til baka,“ segir Hreiðar og hlær.
Hreiðar segir að samspil fiskveiða, loftslags og sjávarhita sem hann er að skoða um þessar mundir í rannsókn sinni sé áhugavert. „Það sem ég er helst að skoða er langtíma- og söguleg þróun fiskveiða á Íslandsmiðum. Þróun í aflamagni, fjölda skipa og tenging þeirra þátta við olíueyðslu sem aftur tengist loftslagsbreytingum. Ég hef farið nokkra hringi með þetta en aðal útgangspunkturinn er hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á veiðar við Ísland. Hvaða áhrif hafa þær haft og hvað áhrif munu þær hafa í framtíðinni.“
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.
„Sérfræðingar í óbyggðum“
Flugfélagið Norlandair á Akureyri sinnir flugi til Grænlands og nokkurra minni þéttbýliskjarna á Íslandi. Norlandair er dýrmæt samgönguþjónusta fyrir norðurslóðir að því leyti að fyrirtækið sérhæfir sig í ferðum til einangraðra staða og er á þann hátt lífæð í samgöngum minni byggða og mikilvæg þjónusta fyrir rannsóknir á norðurslóðum.
Grænlandsflug
Norlandair flýgur til Grænlands allt árið um kring. Fyrirtækið flýgur að mestu til Norðaustur-Grænlands og hefur fjölmörg lendingarsvæði í þeim landshluta. Aðstæður geta þó breyst á milli lendinga vegna veðurfars og þurfa flugmennirnir að vera viðbúnir því. Arnar Friðriksson, sölu- og markaðsstjóri Norlandair segir starfsmenn félagsins þekkja byggð svæði minna og vera einskonar „sérfræðinga í óbyggðum.“
Viðskiptavinir fyrirtækisins er í raun þröngur hópur, segir Arnar. Einstaklingarnir sem fljúga með Norlandair til Grænlands eru vísindamenn í rannsóknarferðum til Austur-Grænlands auk starfsmenn fyrirtækja í leit að auðæfum í jörðu. Einnig sinna þeir flugi fyrir danskar herstöðvar á Austur Grænlandi. Flugfélagið aðstoðar vísindamenn í rannsóknaferðum þeirra með því að koma fyrir mælitækjum og myndavélum á flugvélarnar. „Stundum vitum við ekki alveg hvað vísindamennirnir eru að gera en ef þú spyrð þá útskýra þeir alveg í þaula,“ segir Arnar og hlær. Sem dæmi nefnir Arnar þýskan vísindamann sem flýgur árlega til Grænlands til að telja læmingja. „Hann er svo áhugasamur, sem er alveg frábært.“
Innanlandsflug
Starfsemi Norlandair byggist að mestu á Grænlandsfluginu en innanlandsflugið er um það bil 30% af starfsemi flugfélagsins. Innanlands flýgur Norlandair frá Akureyri til Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar. Flogið er fimm sinnum í viku allt árið um kring til Vopnafjarðar og Þórshafnar og þrisvar í viku til Grímseyjar á veturna og tvisvar á sumrin. Þegar meira hefur verið af ferðamönnum er flogið oftar til Grímseyjar, en Arnar segir að Grímsey hafi gífurlegt aðdráttarafl vegna nálægðar við heimskautsbauginn og lundann. Fyrirtækið rekur einnig eina vél í Reykjavík sem flýgur til Bíldudals sex daga vikunnar og tvo daga vikunnar á Gjögur í Árneshreppi. Báðar byggðirnar eru hluti af verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir. Flugin vestur hafa verið vel nýtt af íbúum Bíldudals og í farmflutning, segir Arnar.
Akureyri höfuðstöðvar Norlandair
Norlandair var stofnað 1. júní 2008 á Akureyri en saga félagsins er eldri þótt Norlandair sé aðeins 13 ára gamalt. Sögu þess má rekja til Norðurflugs sem stofnað var árið 1959 og varð síðar Flugfélag Norðurlands. Árið 1975 hóf flugfélagið leiguflug á Grænlandi sem byggir grunninn að þeirri starfsemi sem Norlandair er í dag.
Þegar Flugfélag Ísland seldi Twin Otter vélarnar sem staðsettar voru á Akureyri fóru nokkrir starfsmenn þaðan ásamt Friðriki Adólfssyni, tóku við rekstri vélanna og stofnuðu Norlandair. Markmiðið með stofnun Norlandair var að halda áfram hinum víðtæka flugrekstri sem hefur verið Akureyri í áratugi. „Við hjá Norlandair byggjum því á langri sögu og reynslu, ekki síst í Grænlandsfluginu. Reynslan hefur sýnt að staðsetning okkar á Akureyri er mjög góð gagnvart flugþjónustu við Grænland,“ segir Arnar.
Lesa má um verkefnið og önnur viðtöl hér.