MenningarskiptiKarólína Rós Ólafsdóttir og Iluuna Heilmann hittust fyrst í Nuuk á Grænlandi árið 2016 þar sem þær tóku þátt í menningarskiptum; verkefni sem vinnur að því að skapa sterkari tengsl á milli Íslands og Grænlands. Þær hafa verið góðar vinkonur síðan. Iluuna býr núna í Kaupmannahöfn þar sem hún er í meistaranámi í stjórnmálafræði, samskiptum og miðlun í CBS háskólanum. Hún er í starfsnámi hjá danska þinginu, þar sem hún vinnur fyrir grænlenska flokkinn Inuit Ataqatigiit. Karólína býr í London þar sem hún útskrifaðist nýverið úr BA-námi í ritlist og bókmenntum frá Goldsmiths háskólanum. Hún starfar við skáldskap og myndlist í Suð-austur London ásamt því að vera kennari. 

Hér fyrir neðan má lesa um upplifanir þeirra beggja af heimsóknunum til Íslands og Grænlands.

 

Karólína: Þegar ég sótti um að fara í menningarverkefnið til Grænlands, á vegum Háskólans á Akureyri, Menntaskólans á Akureyri og GUX Nuuk, vissi ég ekki endilega við hverju ég ætti að búast og var hvorki með sterkar né margar hugmyndir um Grænland. Það er eiginlega ótrúlegt að hugsa til þess hversu lítið Íslendingar vita um Grænland, þennan næsta nágranna okkar, miðað við hvað við vitum mikið um Danmörku, lærum auðvitað dönskuna og þekkjum alltaf einhvern sem er í, eða á leið til, Köben. Við lentum á Grænlandi nokkuð seint að kvöldi til, þrjár stelpur frá Akureyri, Ágúst Þór Árnason, Arngrímur Jóhannsson og heimskauta lögfræðingurinn Federica Scarpa, og fórum beint frá flugvellinum til þeirra fjölskylda sem að voru að hýsa okkur. Við keyrðum í miklu myrkri og það var ekki fyrr en morguninn eftir að ég gat litið út um gluggann hjá dásamlegu hjónunum Pauline og Kent og séð litrík hús í blárri snjóþungri bæjarmynd við hafið. Þetta nýja fallega landslag var hins vegar ekki jafn framandi og ég hafði búist við. Þó það hafi auðvitað alls ekki verið eins og á Íslandi, þá var það samt frekar eins og væri um „frændlandslag“ að ræða heldur en eitthvað algjörlega ókunnugt. Næstu daga fórum við í heimsóknir á stofnanir, á söfn, til heimamanna, kynntumst grænlenskum krökkum í menntaskólanum í Nuuk og fengum tíma til þess að skoða okkur um borgina.

Hvað kom mér kannski helst á óvart í ferðinni var hversu ágeng dönsku nýlenduáhrifin voru á grænlenska menningu og svo sérstaklega á ungmenni. Á þessum tíma hafði ég ekki gert mér í hugarlund hvernig ástandið væri. Þar sem við fengum að fara í heimsóknir á stofnanir og skrifstofur stjórnmálamanna opnuðust augu okkar hversu lítinn áhuga Danir hafa á því að byggja upp innviði og tækifæri á Grænlandi. Til að mynda eru (voru allavega þegar við fórum þangað í heimsókn) flest fög háskólanum í Nuuk kennd á dönsku svo ef að einstaklingur kann ekki dönsku eru ekki tækifæri á háskólastigi nema í landbúnaðarháskólanum. Ég veit ekki hvernig þetta er í dag, en það er óhugnanlegt að hugsa til þess að öll ungmenni á landsbyggðinni sem að tala ekki, eða tala litla dönsku eigi sér svona lítið val. Í heimsókn á skrifstofu danskra ræðismanna í grænlensku borgarstjórninni var það sömuleiðis sjokkerandi að heyra hvernig þeir töluðu um Grænland. Einn maður sagði til dæmis frá því hvernig hann væri aðeins í Nuuk tímabundið því að fjölskyldan hans væri heima í Danmörku. Þegar við spurðum hann af hverju hann hefði ekki flutt þau með sér sagði hann hreinlega að hann „vildi ekki koma með þau í jafn brotið samfélag og Grænland, það væri of hættulegt.“ En hvernig getur maður ætlast til að einhver eins og þessi maður vilji raunverulega bæta grænlenskt samfélag ef að hann vill ekki einu sinni taka þátt í því?

Ég vona innilega að Ísland haldi áfram að skapa sterkari tengsl við Grænland. Ég vona að menningarverkefnum á milli landanna tveggja fjölgi og að þetta ungmennaverkefni, þessi menningarskipti, haldi áfram. Ásamt því að læra svo ótrúlega margt, þá eignaðist ég góða vini og dásamlegar minningar á Grænlandi og vonast til þess að koma þangað aftur og oft.

Iluuna: Ég elska Ísland. Ég elska Ísland svo mikið að ég tók þátt í menningarverkefninu tvisvar. Að koma til Íslands veitti mér bæði innsýn og innblástur. Ég hef alltaf haft áhuga á því að taka þátt í pólitík, og með framtíð Grænlands í huga, leit ég alltaf til Danmerkur. En það sem að íslensku vinir mínir og leiðbeinendur Arngrímur Jóhannsson, Ágúst Þór Árnason og Karólína sýndu mér í heimsóknum mínum til Akureyrar, var nýr sjóndeildarhringur tækifæra og nýr staður sem gat veitt mér innblástur fyrir þróun landsins míns. Ísland og Grænland eiga margt sameiginlegt. Við eigum lítil samfélög, þar sem að samfélagið sjálft vegur sterkar en einstaklingurinn. Við lifum bæði við harðræði, vægðarlausa náttúru og á hrjóstugri jörð þar sem að auðlindir eru ekki endilega alltaf aðgengilegar. En Ísland er samt sem áður komið mun lengra í sinni þróun en Grænland.

Það sem veitti mér kannski mestan innblástur á Íslandi var áhersla á vellíðan ungmenna og síðan íslenska fagurfræðin. Það kom mér þannig fyrir sjónir að vellíðan, bæði líkamleg og andleg, var sett í forgang í menntaskólum með því að bjóða upp á íþróttir og tómstundastarf. Ég trúi því að Grænland gæti lært margt frá þessu íslenska fyrirkomulagi. Aðeins tilhugsunin um að íslensku vinir mínir gætu tekið þátt í ljóðaklúbbi og skólablaði lét mig vilja flytja til Íslands! Varðandi fagurfræðina: þá er Ísland sætasti staður í heimi. Hvernig landið hefur náð að nota náttúruna og auðlindirnar í arkitektúr og hönnun finnst mér aðdáunarvert og hvetjandi!

Menningarverkefni sem þetta opnaði augu mín. Það gaf mér ekki bara vini fyrir lífstíð heldur algjörlega nýja sýn á stjórnarhætti. Stjórnarhætti lítils lands sem hefur lagt áherslu á sveitarfélög og smærri samfélög. Ég á mér framtíðarsýn þar sem ég get flutt til Íslands og lært af stjórnarháttum og reynslu íslenskra stjórnmála og vonandi tekið með mér nýjar hugmyndir heim til Grænlands.

Við erum mjög þakklátar að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni og að hafa kynnst því frábæra fólki sem við hittum. Það er mikilvægt fyrsta skref að benda ungmennum á möguleika með menningarstarfi sem þessu. Við, sem sitjum svo norðarlega á hnettinum ættum frekar að vingast en að fjarlægast. Horfa til þess sem við eigum sameiginlegt og þeirra spennandi tækifæra sem að felast í því að Ísland og Grænland myndi sitt eigið samband og samvinnu. 

 

Við viljum þakka Arngrími og Federicu fyrir að vera með okkur í þessu verkefni og Ágústi Þór, sem yfirgaf þessa veröld alltof snemma.

Karólína og Iluuna

Designed & hosted by Arctic Portal